fimmtudagur, 6. maí 2004

Ljenzherrann af Kaffisterkt fræðir almúgann.
Þráleitur misskilningur er þegar menn tala um “Spaghetti Bolognese” og telja það ítalskan rjett. Fátt er reyndar jafn fjarri lagi þessi rjettur er alíslenskur og er ættaður úr Andakílshrepp í þokkabót.

Borgfirskar húsmæður hafa löngum þótt með þeim betri og eru afar eftirsóttar víða erlendis bæði til nytja og skrauts. Eitt þótti þó frá þeim öðru betra. Þegar spaghetti-æðið var í sem mestum algleymingi uppgötvuðu þessar ágætu fraukur frábæran rjett, soðinn úr túmötum og hökkuðum borgfirskum nautgripum, bar hann nafnið “Spaghetti Borgarnes.”

Rjettur þessi þótti ljúfmeti og fjell vel í kramið hjá sveitungum, nær og fjær. Engin kann þó á honum betri skil en Sigríður frá Stóra-Kroppi. Er þar ekki í kot vísað og hjá henni eta menn sjer til óbótar, sjeu þeir eigi stoppaðir af.

En úr einu í annað

Einhverntíman varð allt fyrst og vill Ljenzherrann af Kaffisterkt votta þeim manni virðingu sína sem fyrstur taldi upp í 26. Þetta gerði hann í trássi við gildandi hefðir sem gerðu ráð fyrir því að einungis þyrfti að telja upp í 25.

Einnig vil Ljenzherrann þakka manninum sem fann upp húrrahrópið, líka þeim sem kom upp með þrefalda húrrahrópið og loks vill Ljenzherrann krjúpa fyrir þeim manni sem fyrstur sagði hipp hipp svo aðrir menn vissu að þeir ættu að hrópa húrra.

Ljenzherrann æskir eftir upplýsingum um manninn sem fyrstur bætti fílíókus aftan við hókuspókus, þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir hans eru vinsamlega beðnir um að vera ánægðir með sjálfan sig.

Sakir prófa hefir Ljenzherrann ekki tíma til að kokka upp nýja vitleysu og blandar því gamalli saman.

Engin ummæli: