fimmtudagur, 27. maí 2004

Bakkamatur er ómissandi vorboði í huga Ljenzherrans af Kaffisterkt. Þá matast hann með plasthnífapörum í misjafnlega þrifalefum skúrum, sem sjaldnast eru með rennandi vatni. Bakkamaturinn er eldaður klukkan níu á morgnanna og er lystugur samkvæmt því þegar Ljenzherrann hámar hann í sig klukkan tólf.

Á sumrin stendur Ljenzherranum til boða vondur matur með góðu nafni, því kokksins sköpunargleði einskorðast við nafngiftirnar sem hann velur rjettum sínum. Eru þær oft á tíðum ákaflega hátíðlegar og engu tilkomuminni heldur en það sem gerist á fínustu veitingahúsum. Þykir Ljenhzerranum þetta skjóta ákaflega skökku við þar sem að maturinn sjálfur bliknar við hliðina á nafngift sinni og krásirnar eru yfirleitt orðnar það sjálfmeltar og sveittar að hnífapör eru algerlega óþörf. Til dæmis er hægt er að slafra ofnbökaðar villibráðarkryddaðar lambakótilettur í sig á mettíma með röri.

Með hverjum bakka fylgir súpa eða grautur, og þar kastar nú fyrst tólfunum. Súpurnar eru allar ákaflega dularfullar og eina tilbreytingin í þeim efnum er sú að þær heita mismunandi nöfnum. Allar státa þær af sama góða hveitibragðinu og ekki er óalgengt að rekast á sveppi á svamli í súpu kenndri við aspargus.

Í gær var svokölluð "súpa Mexikó" á boðstólum, en það þykir Ljenzherranum sjerlega skemmtileg súpa, Ekki það að hún sje góð, heldur skemmtir Ljenherrann sjer konunglega við að reyna að finna einhverja tengingu á milli nafngiftarinnar og bragðsins. Þrátt fyrir mikil heilabrot hefir Ljenzherrann ekki enn komist að viðunandi niðurstöðu.

Víða á endurvinnslustöðvum Sorpu má sjá gáma þar sem gömlum skóræflum er safnað saman. Gámar þessir eru reglulega keyrðir upp á Höfða þar sem sólarnir eru rifnir af skógörmunum, steiktir á pönnu og settir í hamborgarabrauð ásamt úldnu káli og ótæpilegu magni af hanastjelssósu. Jarðarinnar sveittustu franskar setja síðan punktinn yfir i-ið, en jafnvel sílspikaður pylsugerðarmaður er eins og dömubindaaulýsing miðað við franskar þessar.

Hamborgurum þessum er síðan prangað inn á blásaklaust fólk, og sumir samviskusamir borgarar, sem hafa unun af endurvinnslu, eru jafnvel að kaupa sama skósólann í annað sinn.

Engin ummæli: