miðvikudagur, 5. maí 2004

Athugulir menn hafa sjest á hrafnaþingum víða um bæinn að ræða skyndilegan skort á gömlum kerlingum, sem þeir telja afar dularfullan.

Þannig eru mál með vexti að tvisvar á ári smalar prófmeistari Háskólans saman öllum okkar göfugu kellingum og virðist leggja metnað sinn í að hafa þær sem allra elztar. Kellingar þessar eru rifnar upp úr ruggustólunum og drifnar niður í Háskóla þar sem þær nýtast ágætlega við yfirsetu á prófum.

Sumar þeirra taka embætti sitt hátíðlega, aðrar taka inn á sig alla áþján stúdenta, á meðan enn aðrar fela sig á bakvið dagblöð eða láta prjónana ganga á öðru hundraðinu. Allar líta þær þó út sem harðsvíraðir svartamarkaðsbraskarar því að sú regla gildir, að slökkva verður á farsímum og geyma þá á borðinu hjá gömlu kerlingunni.

Eitt skipti sofnaði ein kerlingin í miðju prófinu og þar sem hún virtist vera komin talsvert yfir síðasta söludag fóru nemendur að veðja sín á milli hvort að hún væri sofandi eða dauð. Hinir hugrökkustu köstuðu í hana strokleðursbútum á meðan aðrir ljetu sjer nægja að benda og þóttu góðir. Hrökk hún loks upp með andfælum þegar hringt var út úr prófinu og þar með tapaði Ljenzherrann vasaúrinu sínu.

Engin ummæli: