fimmtudagur, 29. apríl 2004

Sakir mikilla anna vegna prófa hefir Ljenzherrann eigi tíma til að kokka upp nýja vitleysu. Hefir hann því tekið upp á að birta aftur færslur sem honum hafa þótt lukkast vel. Gjöriði svo vel.

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna greindi frá því nú í morgun að verkbók í eðlisfræði hefði greinst á sporbaugi um jörðina. Þegar hafist var handa við að rannsaka þetta fyrirbæri með sterkustu sjónaukum komu í ljós hin ýmsu gröf og töflur, auk uppdrátta af tækjauppsetningum og umfjöllunar um óvissu.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að umrædd gögn voru niðurstöður hverfitregðutilraunar og að eigandi bókarinnar hefði verið fangaður í net við tjörnina í Reykjavík. Þar hafði hann haft uppi dónaskap við endur og fleiri fugla. Þegar Lögreglu bar að garði grýtti hinn ungi maður laganna verði með eigin hægðum, var hann þó fljótt yfirbugaður, enda þraut honum skotvopn að lokum.

Við yfirheyrslur reyndist ómögulegt að sannfæra hinn grunaða um það að hann væri handtekinn. Þótti honum lögreglan ekki hafa nægjanlega góð mælitæki til að sönnur yrðu færðar á það með óyggjandi hætti.

Fyrir atbeina Arums Oluvsen verður gerður út sjerstakur leiðangur til að endurheimta verkbókina, eða í það minnsta leiðrétta það sem í henni stendur. Aðspurður kvaðst Arum hafa beint sjónauka sínum að bókinni og séð að óvissureikningar væru ekki sem skyldi auk þess sem gleymst hefði að skilgreina nokkrar breytistærðir.
Hefir Arum nú þegar hannað húfu með helíkopterspöðum og stóreflis teygjubyssu sem hann hyggst skjóta sjálfum sjer með út fyrir gufuhvolfið. Sjóklæðagerðin 66°N vinnur nú hörðum höndum að því að sauma á kappann geimbuxur auk þess sem gömul en hjartahlý kona í vestur-Landeyjum er að prjóna á hann lopavettlinga.

Athugulir menn sem fylgst hafa með undirbúningnum hafa rekið nefið í það að Arum virðist hafa gleymt að gera ráð fyrir því hvernig hann ætti að komast til baka. Þessir sömu menn eru allir sammála um að þegja yfir því.

Viðri ekki til mannskots hyggst Arum varpa málningardós út í geiminn og hefir hann nú þegar gert viðeigandi útreikninga til að verkbókin verði fagurrauð. Að sögn fróðra manna kemst það afar nálægt því að slengja Arum sjálfum út í geiminn, vopnuðum tússpenna.

Ríkissjónvarpið hyggst vera með beina útsendingu frá herlegheitunum til að sem flestir geti dregið af þessu nokkurn lærdóm. Fari svo að Arum sendi staðgengil sinn, málningardósina, í þessa sendiför mun hann þó engu að síður koma fram í sjónvarpi, en einungis geta sjer til um hvað þyrfti leiðrjettinga við.

Engin ummæli: