mánudagur, 26. apríl 2004

Ljenzherranum þykir hin mesta skemmtan fólgin í því að fara yfir götur á grænum köllum, og þá helst að óþörfu. Bezt þykir honum ef hann er einn á ferð á háannatíma og þegar best lætur stöðva 20 til 30 bílar fyrir honum. Ljenzherrann nýtur augnarbliksins til fulls, stikar borubrattur yfir strætið og það rignir upp í nefið á honum.

Á einum af þessum gangbrautarferðum sínum rak Ljenzherrann augun í spaugilega sjón. Líkbíl nokkurn og framsætinu sátu þrír prúðbúnir menn miklum í þrengslum. Skyldu þeir aldrei láta freistast og bregða sjer aftur í á fyrsta farrýmið, til að leggja sig eða kíkja í blaðið?

Það þætti Ljenzherranum spaugileg sjón, ef hann lenti á rauðu við hliðina á líkbíl og sæi tvo menn frammí í hrókasamræðum, með tilheyrandi handabendingum og táknmáli, en afturí lægi einn makindalega ofan í kistunni, blaðandi í mogganum og með rósemdarsvip á andlitinu, rjett eins og hann lægi í baðkarinu heima hjá sjer.

Ljenzherrann fór nú að láta hugan reika. Það má nú ekki slá í þann látna á leiðinni... hljóta líkbílar þá ekki að vera með kæli eða frystibúnað fyrir lengri ferðir. Það væri nú ekki dónalegt fyrir bílstjóra sem þarf að aka líki til Stykkishólms að geta laumað samlokum og gosi í fangið skjólstæðingi sínum og gætt sjer svo á því ísköldu, þegar sá gallinn væri á honum.

Þetta yrði sennilega ekki alveg eins sniðugt ef hann myndi gleyma að fjarlægja veitngarnar á áfangastað og rumpa kistunni beint inn í kistulagninguna.

“Hann var soddan öðlingur, hann Jón…” segir ábúðarfullur presturinn, með útgrátnar axlirnar og opnar kistuna, spekingslegur á svip. Ungfrú Torhildur þerrar tárin með silkiklút og telur svo í sig kjark til að kveðja hann bróðir sinn.

Í kistunni liggur virðulegur maður í sínum síðustu fötum, augun eru lukt og friður yfir andlitinu. Allt er eins og það á að vera, nema hvað hinn látni er með fangið fullt af gosi og gotteríi, rjett eins og hann hafi stolist út í sjoppu, en viljað spara sjer pokann.

“Uh... má ekki bjóða ykkur gos...” gæti presturinn svo sagt til að redda sjer úr bobbanum.

Engin ummæli: