þriðjudagur, 27. apríl 2004

Ljenzherrann birti fyrir nokkru valda mola úr bókinni ,,Heilsubót og mannamein" sem Niels nokkur Dungal þýddi og staðfærði. Bók þessi er svo sannarlega barn síns tíma og hlaut þetta uppátæki Ljenzherrans einróma lof og er hjer því kominn annar skammtur.

Heilbrigt kynferðislíf.
Hamingjusamur er sá maður, karl eða kona, sem ekki er gæddur ríkari kynhvöt en svo, að hún er aðeins gildur þáttur lífsþarfa hans og lífspeki – en ekki meir. Menn segja, að kynhvötin hafi spillt fjölda manna og kvenna, en hitt gleymist að hún gerir einnig trausta menn og konur úr alvörulausum piltum og ljettúðugum stúlkum. Kynhvötin getur fyllt menn andagift og gert hversdagslegan ungling að skáldi.

Stundum verða náttúrunni á þau mistök á um þróun kynfæranna, að erfitt getur verið að skera úr því, án nákvæmrar rannsóknar og jafnvel holskurðar, hvort fullþroska einstæklingur sé fremur karl en kona. Þessir ógæfusömu vanskapningar nefnast viðrini, og er litið á þá af heilbrigðum mönnum með fyrirlitningarblandinni meðaumkvun. Venjulegast bregður þeim meira til annars kynsins, þó við beri, eins og áður getur, að erfitt sje að greina á milli.

Fyrstu ævidaga barnsins ber að athuga vandlega kynfæri þess, til að komast eftir, hvort þeim sje í nokkuru áfátt. Sveinbörn ber að athuga rækilega með tilliti til þess hvort þeim sje þörf umskurðar. Ef forhúðin er þröng og lítt hreyfanleg, safnast oft undir hana þvag, er valdið getur ólykt, kláðafiðringi og sársauka. Börnum sem hafa þennan ágalla, hættir við þeim ljóta sið að fitla við kynfæri sín, og getur það leitt til skaðlegs og ófagurs ávana. Kynfæri barna skal ræsta með aðgæzlu, svo að ekki geti valdið ertingu og örvun kynhvatanna og á þann hátt leitt barnið til að rjála við kynfæri sín.

Það er alkunna að grátandi börn, sveinar og meyjar, þagna næstum samstundis, ef farið er höndum um kynfæri þeirra. Þetta er aldagamall ósiður kærulausra barnfóstra og fáfróðra mæðra. Ætti enginn að hafa slíkan óvanda um hönd, því hann leiðir oft beinlínis til sjálfsflekkunar. Þó að sjálfsflekkun sje að líkindum skaðlausari en talið hefur verið, er hún eigi að síður ljótur ávani, og er skylt að gera allt sem í valdi stendur til að koma í veg fyrir að hann festi rætur í börnum.

Ef börnum væru kennd hæfileg og vegleg nöfn á kynfærum sínum, mundu erfiðleikarnir við fræðslu um kynferðismál að miklu leuti falla úr sögunni. Er lítil von þess, að barn geti notað klúryrði þau, er almenningi eru tömust, án þess að virðing þeirra og hæverska bíði hnekki af.

Engin ummæli: