fimmtudagur, 22. apríl 2004

,,Gleðilegt sumar!" ...segir Ljenzherrann sposkur á svip.
Sumardagurinn fyrsti var, í Ljenzherrans æsku, dagur mismununar og óréttlætis. Sem dæmi má nefna að eitt sumarið fengu allir krakkarnir reiðhjól í sumargjöf, sem voru ný sem splunka. Ljenzherrann fjekk apturámóti plastbolta og krítar.

Ljenzherrans fyrsta verk, eftir að móðir hans hafði sent hann stolt út að leika, var að margendurtaka þau tvö blótsyrði sem hann kunni og sparka Plastboltanum út í mýri. En blokkin Ljenzherrans stóð á mörkum hins byggilega Kópavogs þess tíma.

Krítarnar nýttust Ljenzherranum hinsvegar ágætlega við að túlka innbyrgðar tilfinningar sínar á stjettina fyrir framan húsið. Einkum vonbrigði vegna sumargjafarinnar og öfund út í krakkana sem hjóluðu á fínu hjólunum sínum í kringum hann og bentu.

Brátt kom einn nágranninn brosandi út til að athuga hvað litla dúllan væri að teikna. Brosið breyttist í andstæðu sína á augabragði því teikningarnar fóru greinilega fyrir brjóstið á þessari siðprúðu persónu sem skammaði Ljenzherrann og sagði honum að ,,svona ætti maður ekki að teikna". Siðapostulinn náði svo í slöngu og strákúst eyddi sumardeginum fyrsta í að skola listaverkinu ofan í ræsi.

Ljenzherrann fylltist bræði og þeirri svívirðingartilfinningu sem þeir einir geta fyllst, sem skortir rúman meter upp á að geta horfst í augu við ofbeldismanninn. Sakir stærðarmunar ákvað Ljenzherrann að hörfa á nýjan stað og tók aftur til við að teikna kynngi mögnuð listaverk, en nú með nýrri persónu í aðalhlutverki.

Sagnir herma að nágranninn siðprúði hafi átt þar leið hjá daginn eftir og orðið svo ,,ga-ga” þegar hann sá sjálfan sig á stjettinni, að hann hafi hlupið út í mýrina. Þar á hann að hafa tekið upp lifnaðarhætti og atferli votlendisfugla, gert sjer hreiður og reynt að unga út plastbolta nokkrum, sem hann fann einan og yfirgefinn í feninu.

Á hreiðri sínu sat hann nema ef einhver nálgaðist, þá galaði hann sem hani, hljóp haltrandi um og ljet aðra höndina lafa niður með síðunni. Voru gerðar margar tilraunir og spennandi til að ná honum, en að lokum tókst að veiða hann í net. Var hann samstundis klæddur í óðsmannsskyrtu og gert að eta margar tegundir af pillum.

Er honum enn þann daginn í dag haldið föngnum og niðurlyfjuðum í einsmannsklefa, þar sem hann segir hverjum sem heyra vill, jafnt hjúkrunarfólki sem ímynduðum persónum, að hann ætli að ná sjer niður á þessum Ljenzherra af Kaffisterkt.

Engin ummæli: