þriðjudagur, 20. apríl 2004

Aldrei skyldi vanmeta það gagn sem afköstum og árangri í lærdómi hlýst af geðsýkislegu stresskasti. Námsmenn ættu helst að öllu að slaka reglulega vel á fyrstu tvo til þrjá mánuði hvers misseris, og láta síðan mikið írafár heltaka sig.

Í slíku ástandi skal etið mikið nammi og engum drukk skal hleypt inn fyrir varir, nema hann innihaldi eitthvað af eftirfarandi; Ginseng, þrúgusykur, koffein, guarana, ginko-biloba, gerikomplex eða amfetamín.

Svefnlausar nætur eru svo rúsínan í pylsuendanum, en án þeirra þætti Ljenzherranum sem hann hefði verið sviptur ánægjunni af því að vera til.

Allan þennan tíma sem prófin standa yfir sjer Ljenzherrann endalok þeirra fyrir sjer í hyllingum og miklar alla þá hluti sem hann ætlar að taka sjer fyrir hendur. Margir þessara hluta eru nýtilkomin áhugamál sem Ljenzherrann kom sjer upp sjálfum sjer til sáluhjálpar í próflestrinum.

En raunin vill verða sú að þegar síðasta prófinu er lokið, grípur um sig ógurlegt tóm og samvizkubit í huga Ljenzherrans, og ánægjan sem hann taldi að hann hefði af iðjuleysinu er ekki til staðar, heldur einungis svefnleysishöfuðverkur og magakrampar.

Ljenzherranum líður þá eins og áttræðum manni sem er nýbúinn að missa ástkæra eiginkonu sína til fjölda ára og þarf allt í einu að standa uppi í hárinu á lífinu, einn síns liðs og einmana.

Engin ummæli: