þriðjudagur, 16. mars 2004

Ljenzherranum er umhugað um lesendur sína og því hefir hann afráðið að birta reglulega valda kafla úr bókinni “Heilsurækt og mannamein- læknisfræði nútímans fyrir almenning” sem gefin var út 1943 af bókaútgáfunni Dagrenningu.

Á öðrum stað í riti þessu er vikið að því, að haga megi uppeldi pilta og stúlkna nákvæmlega á sama hátt til tólf ára aldurs. Úr því að þeim aldri er náð, fer að gæta sjereðlis stúlkubarna.Líffæri þeirra taka þá ýmsum breytingum, er miða að því að gera þær færar um að verða mæður.

Jafnhliða þessum líkamlegu breytingum fara andlegar breytingar. Lýsa þær sjer meðal annars í því, að stúlkur taka nú að veita piltum meiri athygli, skipta um lesefni og öðru þess háttar.

Um það leyti er stúlkur verða fullþroska, hættir mörgum þeirra við að taka upp ýmsar miður hollar venjur. Þannig byrja þær oft á því að drekka kaffi og te í stað mjólkur. Þykir þeim manndómsbragð að nautn þessara drykkja. Minnugar ættu þær að vera þess, að drykkir þessir eru hressingarlyf og miður heppilegir á þessu aldursskeiði.

Ýmsar leikfimisæfingar þykja sjerlega hentugar unglingsstúlkum. Sumar þessara einföldu æfinga taka ekki aðeins til venjulegra beyginga og stöðuæfinga, sem auka á fagran limaburð, heldur einnig til knjefallsæfinga, göngu á höndum og fótum, líkt og apar og kettir ganga.

Bezt er að konur baði sig daglega, á meðan tíðum stendur, ef það er annars venja þeirra, og helzt á baðið að vera heitt. Þær, sem aftur á móti hafa vanið sig á köld böð, geta einnig haldið þeirri venju að ósekju því, sem minnstar truflanir ættu að verða á lífsvenjum kvenna, á meðan þær hafa á klæðum.

Flestar konur nota svokölluð tíðabindi eða einföld baðmullarbindi, er þær hafa á klæðum. Á síðustu tímum eru á boðstólum í stað tíðabinda ullarvöndlar eða tróð, sem ætlazt er til að troðið sje upp í leggöngin. Vafi leikur á hvort að slíkur umbúnaður sje æskilegur fyrir konur. Svipað má segja um hinar margvíslegu gúmskálar, sem notaðar eru í sama skyni. Helzt mundi slíkt hentugt leikkonum, línudanskonum og hverskonar fimleikakonum.

Ósjaldan verður þunglyndis og geðveiklunar vart á konum um það leyti, er þær hætta að hafa á klæðum, en mjög sjaldan er eiginlegri geðveiki til að dreifa, og karlmenn á fimmtugsaldri eru undir svipaða sök seldir. Mikils er um vert að konur lifi ánægjulegu lífi þessi ár. Margar konur erlendis taka þá að fást við spilamennsku og ýmsar íþróttir og ná mikilli leikni í því, þó að þær hafi ekki stundað slíkt áður. Sje hægt að vekja áhuga kvenna á nýjum viðfangsefnum er engin öryggisráðstöfun tryggari gegn þeirri taugaveiklan og hugarangri sem oft ásækir þær á þessum árum.


Og hefir þá það markverðasta um blessað kvenfólkið komið fram.

Engin ummæli: