föstudagur, 26. mars 2004

Ljenzherrann iðkar “Kung-fu-karate”
Ljenzherrann var mættur á bókhlöðuna klukkan hálf átta í morgun, fullur af atorku og dugnaði. Hin fögru fyrirheit dugðu þó skammt því bókhlaðan opnar ekki fyrr en korter yfir átta. Ljenzherrann bölvaði hressilega og særði nafn landsbókavarðar við iðjuleysingja og þaðan af verra fólk.

Þar sem iðjuleysi er eitur í æðum Ljenzherrans nýtti hann tímann vel. Hann strípaði sig öllum fötum, brá sjer ofan í bókhlöðusýkið og tók til við að gera Müllersæfingar. Einbeittur á svip, teygði Ljenzherrann sig og beygði eftir kúnstarinnar reglum. Voru tilþrifin slík að sjálfur Müller hefði verið stoltur af.

Var hann mikilfenglegur á að líta, Ljenzherrann af Kaffisterkt er hann iðkaði leikfimi sína í síkinu miðju. Hann leit út sem mikill mógúll og merkilegur, hann leit út sem maður í góðu jafnvægi, maður sem er jarðbundinn umfram aðra menn og í svo frjósömu sambandi við sitt innra sjálf að annað eins hefur ekki þekkst.

Leikurinn tók brátt að æsast og það sem byrjað hafði sem sakleysislegar Müllersæfingar leiddist út í “Kung-fú-karate” svokallað, þar sem Ljenzherrann atti kappi við ímyndaðar persónur og forynjur af ýmsu tagi, ýmist eina eða fleiri í senn.

Þegar Ljenzherrann þóttist hafa unnið fullnaðarsigur á andstæðingum sínum beygði hann sig niður og sagði auðmjúkur á svip: “Hvernig þótti yður þetta, meistari?” Sá sem var til svars var spegilmynd hans sjálfs í vatninu. “Nú þakka yður fyrir” bætti hann svo við skömmu síðar og hneigði sig djúpt. Settist hann svo í “Lotus”stellinguna í síkinu miðju og tók að íhuga, almættinu til dýrðar.

Sat Ljenzherrann að hætti “fakíra” í vatninu og var rósemdin uppmáluð. Innanum hann vögguðu syfjulegar endur sem ýmist stungu höfðinu undir væng, eða snyrtu örlítið á sjer stjelið í tilefni nýs dags.

Dvaldi Ljenzherrann drjúga stund í hugleiðingu sinni. Raknaði Ljenzherrann ekki við sjer fyrr en að fjórði bekkur C úr melaskólanum átti leið hjá. Kennararnir reyndu eftir fremsta megni að koma börnunum í burtu, en Ljenzherrann stóð upp, bauð góðan daginn og tók til við teygjuæfingar.

Er börnin komu að náði vatnið Ljenzherranum upp í nafla, en er hann stóð upp og togaði sig á alla kanta blasti gerðarlegur manndómur hans við fjórða bekk C. Hlógu börnin ýmist eða grjetu, eftir því sem siðferðiskennd þeirra sagði til.
Talið er að fæst þeirra muni ná sjer aftur.

Engin ummæli: