fimmtudagur, 11. mars 2004

Blásið í hornið, Ljenzherrann í bað
Á laugardagskveldinu heyrði Ljenzherrann af Kaffisterkt að blásið var í hornið og fór hann því í bað, herti lappirnar undir rúminu og undirbjó sig fyrir heljarinnar fyllerí. Í baðkarinu marineraði hann líkama sinn í dýrindis ilmolíum og stráði yfir sig baðsalti. Árangurinn af þessu varð ómótstæðilegur og einstaklega vel lyktandi Ljenzherra.

Teitin, sem haldin var á vegum Íþrótta og tómstundaráðs, fór fram í sal einum í Sóltúni og til að halda ungmennafjelagsandanum á lofti hafði þar verið lofað stúlkum í druslulegum klæðnaði og einstaklega hagstæðum kynjahlutföllum.

En kálið var eigi sopið þó í ausuna væri komið því Ljenzherrann þurfti að komast á staðinn. Ljenzherrann afrjeð að taka strætó og sturtaði í sig tveim bjórum á meðan hann beið eftir vagninum. Leiðarkerfi það er vagnarnir aka eftir hentaði þessari för ákaflega illa, en þrem mínútum skeikaði á því að Ljenzherrann næði fjarkanum niðri á Hlemmi.

Þar sem örlítið öl var komið í kauða blandaði Ljenzherrann geði við múgamanninn sem vagninum ók og spurði hvort hann næði fjarkanum á Hlemmi. Þriggja mínútna munur reyndist á þessu stigi málsins óyfirstíganlegur en þegar vagnstjórinn heyrði að Ljenzherrann væri á leið í teiti á vegum ÍTR greip hann þjettingsfast um stýrið, sneri sjer alvarlegur að Ljenzherranum og sagði:

“Jedúddamía!! ÍTR segirðu!! er þá ekki druslulegur klæðnaður og einstaklega hagstæð kynjahlutföll???”

Ljenzherrann kinkaði kolli og hóf að segja sögur af þeim lystisemdum sem hann ætti í vændum síðar um kvöldið. Vagnstjórinn varð alltaf æstari og æstari. Greip hann svo talstöðina og skipaði fjarkanum að bíða eftir sjer á Hlemmi, hjá sjer væri farþegi sem þyrfti að komast í partý á vegum ÍTR.

“Íþrótta og tómstundaráð er loksins farið að standa sig í stykkinu” sagði Ljenzherrann, fjekk sjer vænan sopa af bjórnum sínum og rjetti hann síðan til vagnstjórans. Er þeir höfðu báðir ropað hressilega hjelt sögustund með Ljenzherranum áfram. Lifði vagnstjórinn sig svo inn í frásögnina að hann gleymdi því gjörsamlega að hann væri að aka strætó og þyrfti að stoppa í biðskýlum. Á Hverfisgötunni mátti víða sjá fólk steyta hnefann á eftir sexunni sem þaut hjá á áður óþekktum hraða.

Á Hlemmi kvöddust þeir með miklum virktum, Ljenzherrann og vagnstjórinn. Reyndar með svo miklum virktum að Ljenzherrann átti allt eins von á því að sjá sexunni lagt snyrtilega fyrir utan meinta teiti og inni í teitinni mætti sjá mann með vagnstjórahúfu öfuga á höfðinu að gefa stúlkum skiptimiða.

Á Hlemmi hljóp Ljenzherrann með hraðasta hætti yfir í fjarkann og á leiðinni þurfti hann að klofa yfir afvelta ógæfumenn og berjast við ungmennaklíkur. Þegar í fjarkann var komið rjetti hann vagnstjóranum skiptimiðann. Vagnstjórinn lagaði húfuna sína og mælti með einstaklega yfirvegaðri röddu: “Íþótta og tómstundaráð, druslulegur klæðnaður, einstaklega hagstæð kynjahlutföll, sestu vinur, þetta verður heljarreið”

Engin ummæli: