laugardagur, 13. mars 2004

Af Ljenzherrans baðherbergi og konunglegu frauði.
Ljenzherrann hefir nú nýverið eignast sitt eigið baðherbergi og hefir það aukið á þá annars miklu ánægju sem hann hefir af þeim athöfnum sem fara fram á slíkum herbergjum. Sem dæmi má nefna Ljenzherrans löngu steypiböð, en þau geta staðið tímunum saman. Ljenzherrann er einnig hæstánægður með það hvernig salerninu er fyrir komið, en þaðan sjest beint á sjónvarpið og fyrstu tilraunir hafa gefið til kynna að allar fjarstýringar virki þaðan einnig. Ljenzherranum finnst mikið til þessa koma og þykist kóngur í ríki sínu á þessum stað pappírs og sápu. Drullusokkurinn virkar einnig sem afbragðs veldissproti sem Ljenzherrann er óspar á að sveifla í kringum sig er hann skipar fyrir ímynduðum hirðfíflum og skjaldsveinum úr hásæti sínu. Einnig á hann það til að taka klósettpappírinn, rúlla honum út og lesa á hann sem forna papírusrúllu. Klósettburstann brúkar hann til að slá góða drengi til riddara.

Það er einungis einn vankantur á þessari ágætu snyrtingu, en hann er sá að leiðslur liggja í loftinu sem hverfa með grunsamlegum hætti sitthvorum megin í veggina. Þetta væri eigi vandamál sem slíkt ef að frá þessu væri samviskusamlega gengið en svo er eigi. Bak við rörin er holrými sem liggur í myrka afkima og súmaskot og kemur þaðan mikill fnykur.

Ljenzherrann er góður drengur og sem góðum dreng sæmir á hann ráð undir rifi hverju, nema að það sjeu skammrif, en þegar svo ber undir á hann böggla í úrvali. Ljenzeherrann brunaði því út í Bykó og bað um stærsta mögulega brúsann af festifrauði, en það þykir allra meina bót. Til að tryggja að hann fengi örugglega stærsta brúsann af kvoðunni góðu gerðist Ljenzherrann dús við Byko-manninn. Ljenzherrann sá reyndar mikið eftir því, þar sem Birgir eða Björn eða hvað hann nú hjet ljet móðan mása um þær dásemdir sem “Sikaboom” festifrauðið hefir umfram önnur frauð. Hans síðustu orð voru “”Sikaboom” þenst fimmfalt út...”. Hann hafði varla sleppt orðinu fyrr en Ljenzherrann sprautaði dágóðum skammti upp í hann og gott ef það þandist ekki bara fimmfalt út. “Nú jæja...það er bara hljóðeinangrandi líka” tautaði Ljenzherrann fyrir munni sjer og hjelt heim á leið.

Á leiðinni heim hampaði Ljenzherrann brúsanum sem heilögum kaleik og sýndi öllum sem vildu sjá. Blindir fengu frauð í lófann og gamlar gigtveikar konur lögðust að Ljenzherrans fótum og báðu um heilagt frauð, og heilagt frauð þær fengu. “ Og sjá!!” hrópaði Ljenzherrann, “það þenst fimmfalt út!!” bætti hann svo við og sprautaði frauði yfir nokkra krypplinga sem hurfu smám saman inn í gula skýjaborg. Þá komu að nokkrar sængurkonur sem vildu að Ljenzherrann myndi steypa nýfædd börn þeirra í frauð til að varðveita saklausa æskuna. “ Talið svo við hann Hjört og látið ramma þetta inn fyrir ykkur” sagði Ljenzherrann að verkinu loknu og bljes afgangsfrauð af brúsastútnum.

Ljenzherrann komst á endanum heim og klæddi sig samstundis í föt sem sæma verklegum framkvæmdum. Rak hann svo stútinn varfærnislega inn í holuna og var því viðbúinn að pirraðar leðurblökur eða aldraðar köngurlær myndu vera með einhver uppsteit. Þegar stúturinn var kominn hæfilega langt inn ljet Ljenzherran frauðið streyma úr brúsanum uns hann kláraðist.

Ljenzherrann fnusaði nokkrum sinnum út í loftið og þegar hann var búinn að sannfæra sig um að lyktin væri farin skellti hann í góm og blikkaði sjálfan sig í speglinum. Ljenzherrann fór nú að sinna öðrum hugðarefnum og hagleikssmíðum en þegar hann sneri til baka hafði myndast mikið frauðskrímsl inni á hans heittelskaða baðherbergi.

Skrímsl þetta ljet sig eigi fyrr en í fulla hnefana og var sama hvaða óþokkabrögðum Ljenzherrann beitti, aldrei náði hann að koma á það klofbragði og alltaf komst skrímslið undan og stækkaði bara og stækkaði.
Ljenzherrann flýði loks á dyr, skellti á eftir sjer og grjet beisklega er frauðið tók að þrengja sjer undir þröskuldinn og út um skráargatið.

Það fór því svo að hið yndislega frauð, sem líknað hafði svo mörgum en fengið aðra til að þegja, fyllti þessa Ljenzherrans paradís sem baðherbergið var og hefir enginn maður komið þangað síðan.

Engin ummæli: