mánudagur, 23. febrúar 2004

Enn af árshátíðinni og Hótelgeðveiki.
Ljenzherrann hefir löngum verið þeirrar skoðunar að Íslendingar gjörist tunglsjúkir á erlendri grundu. Samkvæmt nýjustu rannsóknum er þetta eigi allskostar rjett, þeim virðist nægja að koma á hótel til að þetta meingen vakni af dvala. Fyrstur skal Ljenzherrrann viðurkenna að eigi sje hann barnanna beztur. Átti hann meðal annars mörg rifrildi við ósýnilegar persónur auk margra annarra góðra rispa sem honum þykir hentugt að útskýra með Hótelgeðveiki. Eitt sjerkenni hinnar íslenzku Hótelgeðveiki er sú argandi hvöt til að bera sig og/eða skella sjer í lokaðar sundlaugar. Þegar þangað er komið taka arfhreinir einstaklingar með tilliti til Hótelgeðveiki til við að fjölga sjer. Hótelgeðveiki erfist ríkjandi á X-litning.

Boðið var upp á ball og var hljómsveitin alveg kapítuli út af fyrir sig. Ljenzherrann einbeitti sjer þó fremur að sveittum herbergispartýum þar sem eðlisfræðilegum lögmálum, manneldismarkmiðum, heilbrigðissjónarmiðum og byggingarreglugerðum var skotið ref fyrir rass. Ljenzherrann tók þó hring um dansgólfið i einni af lengri gönguferðum sínum þessa nóttina. Gat Ljenzherrann ekki betur sjeð en að hljómsveitarmeðlimir væru börn að aldri. Hlaut þessi skoðun hans byr undir báða vængi er foreldrar piltanna heimtuðu hlje á dansleikinn svo hægt væri að skipta á litlu kútunum og láta þá ropa.

Engin ummæli: