laugardagur, 10. janúar 2004

Um handsápur
Eitt sinn þvoðu landsmenn sjer upp úr kúahlandi, en nú til dags væri slíkur þvottalögur aldrei lagður við hreinlætisins nafn. Í kúahlandsins stað eru komnar sápur ýmisskonar og sjampó.

Ljenzherranum hefir þótt bera á því að hefðbundnar handsápur eigi í vök að verjast gagnvart fljótandi sápum svipaðrar tegundar. Þykir honum það miður enda á hann margar góðar minningar við handlaugina þar sem hefðbundnar handsápur voru hrókur alls fagnaðar, og varla var til sú handlaug sem ekki státaði af einni slíkri í þar til gerðri gróp.

Nú hafa rutt sér rúms fljótandi sápur í plastbrúsum, oft íblandaðar með hinum ýmsu ilmefnum. Sögur herma að jafnvel sjeu til sápur sem eru að einum fjórða hluta rakakrem, en Ljenzherrann selur það ekki dýrara en hann keypti það, það hlýtur að vera dásamleg sápa.

Jafnvel þó svo að hinar nýmóðins sápur lumi á framandi keim og skilji eftir sig silkimjúkt hörund er upplifunin eigi in sama og áður. Fátt jafnast á við að vígja spánýtt sápustykki, rífa spenntur utan af því pappírinn sem barn á jólum og vera fyrstur meðal manna til að vöðla því á milli handa sér í hreinlætisins nafni og alls þess sem er fallegt. Þegar hendur hafa verið vandlega skolaðar og þurrkaðar má svo lýsa því hátíðlega yfir að nú sjeu hendurnar hreinar.

Hinar fljótandi sápur búa engan vegin yfir sama sjarma, og einna síst er þær eru vígðar. Sá maður er slíka sápu afmeyjar má búast við því að hún frussi í lófan á honum eins og vanþakklát götudrós á meðan að loftið er að fara úr dælubúnaðinum. Það þykir Ljenzherranum ekki viðeigandi.

Ljenzherrann mælist því til þess að þeir sem hafa umsjón með handlaug hafi þar ávallt tiltæka hefðbundna handsápu fyrir þá sem það vilja en hinir mega dæla sjer í lófa, Ljenzherranum að ósekju.

Hinn rómantíski ljómi má ekki þverra af handþvottinum því hann er einkar mikilvægum þeim mönnum sem teljast til snyrtimenna. Ljenzherrann veit það fyrir víst að hið sanna snyrtimenni kýs hina hefðbundnu umfram þá fljótnandi.

Engin ummæli: