föstudagur, 16. janúar 2004

Ljenzherrann gerir sig til við kvenfólk í umferðinni.
Á sumrin er Ljenzherrann gröfumaður og borgar þannig fyrir munaðinn og saurlífið yfir veturinn.

Margt hefir á daga hans drifið í því starfi en þó er honum einkar minnisstæður atburður einn er henti í sumar. Í hlut hans kom að stjórna traktorsgröfu á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Hversvegna honum var hleypt þangað, í gegnum mikla öryggisgæslu og innan um vopnaða menn er enn hulin gáta.

Í gröfunni, sem var næsta ný, voru afar öflug hljómtæki er pína mátti úr allsvæsinn hávaða. Sú útvarpsstöð er var í hvað mestum metum hjá Ljenzherranum var Radíó Reykjavík og spilar hún graðhestarokk af grófari gerðinni. Tónlist sem þessi er alveg ómissandi inni í og í kringum tæki sem tjeða traktorsgröfu.

Þetta henti einn fagran sumardag, eða eins og sagt er í Keflavík: fagra sumardaginn 2003. Sól skein í heiði og Ljenzherrann því með speglasólgleraugu af sverustu gerð á trýninu.

Speglagleraugu þessi eru kapítuli útaf fyrir sig en þau þekja hálft andlitið. Sjeu þau sett upp verður maður vígalegur mjög, að ekki sje talað um að maður sje einnig í hlýrabol, líkt og Ljenzherrann.

Í múnderingu þessari var Ljenzherrann sendur í mikla för. Hann var sendur til að redda einhverjum ræflum sem staddir voru hinum megin á varnarliðssvæðinu.

Ljenzherrann lagði upp í förina, hækkaði í útvarpinu, kveikti blikkljósin og þótti mikið til sín koma á leiðinni. Radíó Reykjavík klikkaði eigi, frekar en fyrri daginn og tónlistin atarna fjekk Ljenzherrann til að finna mikið til kynhneigðar sinnar. Flautaði hann mikinn á eftir öllu því sem minnsti grunur ljek á að væri kvenkyns.

Væri hann stopp á ljósum við hlið fulltrúa veikara kynsins ljek hann ýmsar æfingar svo sem að gefa gröfunni hraustlega inn, opna og loka framskóflunni trekk í trekk. Þegar hann hafði náð athygli viðkomandi kvennmanns leit hann hana frygðaraugum og lyfti upp sólgleraugunum með glott á vör sem sjálfur kötturinn í Lísu í undralandi væri fullsæmdur af, bölvaður melurinn.

Þær konur sem litu við gerðu það einungis vegna þess að börn þeirra höfðu æpt “grafa grafa, sjáðu gröfuna!” en ekki vegna dýrslegs Ljenzherrans kynþokka sem geislaði út úr gula skriflinu. Í flestum tilvikum var um að ræða eiginkonur hermanna, en þær hafa lítið að gera á daginn annað en að raða í sig kræsingum og ber vaxtarlag þeirra því fagurt vitni.

Iron Maiden hafa aldrei verið þekktir fyrir neina lognmollu og glumdi lag með þeim í græjunum þegar lítið var eftir af ferðalaginu. Þá hækkaði Ljenzherrann í botn og kímdi. Lagið var afar hressandi og varð hann allur uppveðraður og æstur. Ljenzherrann ljet það því eftir sjer að leika undir á “engan gítar” og stje olíugjöfina sem hún væri bassatromma.

Í algleymingi sínum var hann næstum búinn að keyra framhjá þeim stað sem hann hafði verið sendur til, en með því að beygja hart í stjór á síðustu stundu náði hann að smeygja sjer inn um hliðið. Hann brunaði áfram og negldi svo niður rjett fyrir framan trýnið á þeim sem biðu hans með óþreyju. Þegar vjelin er að mestu stöðvuð vatt hann sjer út og svo heppilega vill til að þegar hann tók í hurðarhúninn var einmitt komið að gítarsólóinu, og í þeim efnum hafa þeir í Iron Maiden ekki verið þekktir fyrir að láta sitt eftir liggja.

Það má því eflaust gera sjer í hugarlund upplifun ræflanna á þessari uppákomu. Þeir búnir að hringja og panta sjer reddara og bíða svo óþreyjufullir eftir komu hans. Þeir píra augun í þá átt sem líklegast er að reddarinn komi úr. Svo allt í einu gerist það! Stórri og verklegri gröfu ber við í sjóndeildinni, hún er á feiknarmiklum hraða. En, hún hægir eigi á sjer, hún virðist ekki vera á leiðinni hingað, bíddu, bíddu, á síðustu stundu rykkist hún til hægri og stímir hingað á ógnarhraða.

Þegar hársbreidd er eftir stöðvast hún með afar tilkomumiklum hætti, hurðin opnast og eitt svakalegasta gítarsóló rokksögunnar berst til eyrna. Í kjölfarið hoppar út rokkstjarna spilandi á lúftgítar, íklædd hlýrabol og með speglasólgleraugu svo stór að ræflarnir sja undrunar og örvæntingarsvipinn á sjálfum sjer sem sjálfkrafa myndast er þeir hugsa: “ Is this really the man they sent to dig up the powerlines!!!!”

Það að gera Varnarliðið í Keflavík rafmagnslaust skapar mun meira vesen en Ljenzherrann hafði í sínum villtustu draumum þorað að vona.

Engin ummæli: