fimmtudagur, 22. janúar 2004

Ljenzherrann af Kaffisterkt sinnir köllun sinni.
Síðastliðinn föstudag fór Ljenzherrann í dæmatíma í stærðfræðigreiningu. Þar sem þetta var fyrsti dæmatíminn voru menn ekki búnir að velja sér hlutverk, utan það að kennarinn skipaði sjer löggildan endurskoðanda. Þeim sem fer með það embætti ber að gaumgæfa hvort að svör þau er kennari fær stemmi við þau sem gefin eru í bókinni.

Ljenzherrann tók að sjer að vera "leiðinlegi gaurinn". Fórst honum það hlutverk sjerlega vel af hendi og spurði einstaklega smásmugulegra spurninga sem voru til algerrar óþurftar og gegndu því eina hlutverki að halda kennaranum á snakki.

Eins og sönnum "leiðinlegum gaur" sæmdi settist Ljenzherrann fremst við hliðina á "samvizkusömu stúlkunni" og í hvert skipti sem hann opnaði á sjer gapaldið bárust brak og brestir um stofuna. Óhljóð þessi voru tilkomin vegna þess að hinir nemendurnir brutu blýanta og bruddu reglustikur sjer til sáluhjálpar og andlegrar líknar.

Dæmatími þessi hefir nú verið felldur niður.

Síðar um daginn brá Ljenzherrann undir sig betri fætinum og hjelt í vísindaferð í "Einingaverksmiðjuna ehf". Þeir í "Einingaverksmiðjunni" veittu rausnarlega í mat og drykk enda líklegast með samviskubit yfir því að hafa lagt það á saklausa stúdenta að hírast í fjóra klukkutíma í óupphitaðri verksmiðju þeirra, í fimbulkulda, innan um steypumót og myndir af nöktu kvenfólki. En slíkar myndir má Ljenzherrann eigi sjá, án þess að roðna.

Buðu þeir upp á pitsur eins og menn gátu í sig látið og bjór eins og menn gátu á sig látið.

Þegar komið var að kveðjustund kvaddi Ljenzherrann sjer hljóðs og hvort stúdentar fengju einingar fyrir komuna.

Engin ummæli: