fimmtudagur, 8. janúar 2004

Hendur sem silki.
Ljenzherrann er að rjetta úr kútnum og hrista af sjer síðustu leifarnar af launavinnunni. Hann hefir legið meira og minna í baði undanfarna daga til að þvo af sjer timburlyktina, snyrt rækilega á sjer hendurnar, skafið undan nöglum og raspað af þeim allt sigg. Líta þær nú út eins og sannar aðalsmannshendur, silkimjúkar og virðast ekki hafa unnið ærlegt handtak alla sína ævi.

Hendur sem berhentar hafa einungis handfjatlað fjaðurpenna, innsiglisstimpla, kristal og silfur. Í hvítum hönskum hafa þær handleikið reiðtygi, píska og krikketkylfur.

Í gær heiðraði Ljenzherrann Bókhlöðuna með nærveru sinni, áritaði myndir og kyssti þau ungabörn sem honum voru rjett. Fjellu unglingsstúlkur grátandi á knjen en piltar snyrtu á sjer hendurnar til að líkjast sem mest átrúnaðargoði sínu, Ljenzherranum af Kaffisterkt.

Eitt sinn brutu allir piltar í sjer framtönn til að líkjast , en svo gerði Bó sjer bragð úr ellefta boðorðinu og spartlaði í gatið. Piltar sátu uppi með sár enni og bitu í súr epli með brotinni tönn.

Ljenzherrann af Kaffisterkt blæs því ferskum og nýmóðins blæ inn í líf ungmenna og áhrifagjarnra minnihlutahópa. Það hlýtur að vera önnur og betri tízka þegar menn eru farnir að snyrta á sjer hendurnar sem óðir sjeu í stað þess að brjóta í sjer tennur.

Til marks um þennan nýja faraldur má nefna að enginn þykir maður með mönnum hafi hann hrjúfar hendur og angi hann í þokkabót af timbri hefir hann fyrirgjört rjetti sínum til samvista við siðaða menn fyrir lífstíð.

Flóttinn frá landsbyggðinni hefir verið stöðvaður, þangað streyma timburangandi ungmenni með hrjúfar hendur. Í Reykjavík blómstra handsnyrtistofur og spretta þær upp sem gorkúlur. Jafnvel inir elstu hurðarhúnar muna ekki aðra eins tíð og iða þeir í skinninu eftir að verða brúkaðir næst, af silkimjúkum höndum. Hvert einasta bifreiðarstýri ljómar af kæti, þetta eru dásamlegir tímar sem við lifum á.

Engin ummæli: