mánudagur, 26. janúar 2004

Ellikerling nartar í Ljenzherrann
Ljenzherranum af Kaffisterkt fannst hann ákaflega gamall síðastliðna helgi. Þannig voru mál með vexti að honum hafði verið boðið í teiti sem bræður nokkrir hjeldu. Höfðu foreldrar þeirra farið erlendis og ákváðu þeir bræður því að halda veislu þeim til heiðurs.

Ljenzherrann mætti til samkundunar ögn rykaður eftir kveldið áður en þá hafði hann drukkið og matast í boði Keflavíkurverktaka. Ljenzherrann hugðist einungis koma þarna við til að bera viðstöddum kveðju sína. Piltur sá er samkvæmið hjelt er hinsvegar afar sannfærandi og áður en Ljenzherrann vissi af var hann farinn að þvo sjer um hárið í baðvaskinum og kominn með öl í hendina.

Bróðirinn hinn eldri er jafnaldra Ljenzherranum en sá hinn yngri er í fyrsta eða öðrum bekk í menntaskóla. Var því teitin afar blönduð og fengu gelgjur og taðskegglingar að ráfa að vild innan um æruprýtt andans ofurmennið sem Ljenzherrann nú er, honum til mikillar raunar.

Ein almestu mistök sem hægt er að gera er að hleypa svona liði í hljómtækin. Ekki nóg með að lagavalið sje með eindæmum einhæft og leiðinlegt virðist vera óskrifuð lög að leyfa engu lagi að klárast. Ljenzherrann var farinn að skima í kringum sig í stofunni eftir vöskum sveinum og traustum húsgögnum. Virki hugðist hann byggja úr mublunum í kringum græjurnar og verja það til síðasta blóðdropa með einvala liði sínu, Ljenzherrans landgönguliðum sem hann myndi þjálfa af tilefninu.

Djúpt sokkinn í þessa hernaðaráætlun sína varð honum það á að reikna það út hversu langt það var síðan hann var sjálfur í þessum sömu sporum. Útkoman kom við kauninn á Ljenzherranum. Þetta voru fleiri ár en hann vildi kannast við, hann var orðinn gamall.

Honum fannst sem það hafi verið í gær sem hann var á sama reki og þessar óþroskuðu hormónabombur. Ælandi ofan í burkna og brjótandi glös, en þá þótti honum hann sjer vera ákaflega fullorðinn, enda kominn í menntaskóla.

Við fermingu er því logið að börnum að þau sjeu orðin fullorðin. Þetta er endurtekið þegar þau fara í menntaskóla. Það er hinsvegar ekki fyrr undir lok hans sem fiðrildin eru farin að skríða úr púpunum, sumir eru þó eilífðarlirfur.

Ljenzherrann reyndi þó að gera sitt besta til að siða ungmennin til og átti við þau samræður um reykingar, getnaðarvarnir og hve púkó það sje að brúka eiturlyf. Reyndi hann að höfða til þeirra á jafningjagrundvelli og kallaði þau til sín, eitt í einu, og ljet þau krjúpa við fætur sjer meðan hann las þeim pistilinn.

Stúlkum þeim er Ljenzherranum þóttu frillulega klæddar var gert að sveipa um sig teppi, eður skýla blygðun sinni með öðrum hætti.

Engin ummæli: