laugardagur, 6. desember 2003

Ljenzherrann hefir nú sett á stofn lærdómssetur í kjallara kastala síns. Lærdómssetrið er staðsett í herbergi sem áður var leigt út til búsetu en stendur nú autt. Ljenzherrann hallast að því að fyrri leigjendur hafi flúið undan skítnum af sjálfum sjer en lyktin og óþrifnaðurinn þarna inni var með ólíkindum. Klósettið var kapítuli út af fyrir sig og leit út eins og að þyngdarlögmálið hafi verið þverbrotið þar trekk í trekk, eða þá að menn hafi alltjent afar undarlega klósettsiði. Einnig leysti Ljenzherrann upp rottusamkundu sem var þar í fullum gangi og sendi þær til síns heima. Var þar mikið fjör er hann bar að garði og virðast þær hafa haft þarna afar blómlegt samkvæmislíf.

Konan fyrir neðan Ljenzherrann varð fyrir því óláni að inná hana flutti maður og búa þau saman í synd. Sakir saurlífisins á neðri hæðinni er Ljenzherrans lærdómssetur afar vel húsgögnum búið. Tileinkast það af því að inn innflutti maður neðanþilja þurfti að rýma íbúð sína til að eiga fyrir tilhugalífsvarningi, ilmsmyrlsum og andremmumeðulum, og brúkar nú Ljenzherrann hans sófa og borð sem sinn eigin. Er því í lærdómssetrinu innréttuð baðstofa auk vinnuaðstöðu og salernis.

Ljenzherrann hyggst gefa hjónaleysin saman bæði sem þakklætisvott fyrir mublurnar og eins til að róa eigin huga, honum er ekki vel við slíka siðleysu.Hefir hann vart fest svefn undanfarnar nætur, hann liggur á hleri og skelfur af ótta við að nágrannarnir sjeu ef til vill að vinna sjer inn dágóða stund í hreinsunareldinum. Myndi hann gera sjer bragð úr ellefta boðorðinu og bjóða þeim aflátsbrjef, ef sölumennska væri ekki bönnuð í húsinu.

Eitt sinnið þóttu honum teikn á lofti um að samræði gæti verið yfirvofandi og fór hann niður undir því yfirskyni að hann vantaði sykur. Klukkan var þá hálf ellefu að kveldi og var hann kominn aftur heim fjórum tímum síðar. Eftir það hefir hann mengað drykkjarvatnið í húsinu með elixír sem hann sauð af ítustu vandvirkni úr inum ýmsu fágætu hlutum úr jurta og dýraríkinu.

Er elixír þessi þeirrar náttúru að mönnum sem drekka hann rís ekki hold og fá þeir meiri áhuga á innanhússarkítektúr en kynferðislegu samneyti. Hamast nú allir karlmenn húsinu öllum stundum við að endurinnrjetta íbúðir sínar, mubluskak glymur næturlangt. Á meðan liggja þeirra sjerstöku kærustur tilbúnar í fletinu og bíða og vona. Þær mega bíða lengi því að elxírinn er svo magnaður að jafnvel inn minnsti skammtur dugar vetrarlangt. Aukaverkanir eru allnokkrar en þó ásættanlegar en tilgangurinn helgar meðalið.

Það er ljóst af þessu að Ljenzherranum hefir tíminn nýst illa til náms þar sem hann hefir eytt meiri tíma í að standa vörð um sálarheill nágranna sinna en eigin lærdóm. Við hljótum því að vona að í borvjelarhljóðum og mubluskaki finni hann kyrrð til lærdóms, svo ætti að vera, nágrannarnir gera þá ekki annað á meðan.

Engin ummæli: