sunnudagur, 21. desember 2003

Ljenzherrann fór í gær á fyllerí til að koma leifunum af námsefninu fyrir kattarnef, gekk það greiðlega. Fór samkundan fram í sal fyrir ofan efnalaugina Fönn og gat Ljenzherrann ekki betur sjeð en að menn hjeldu heiðri efnalaugarinnar á lofti og væru almennt í sæmilega hreinum fötum.

Skrítinn er sá samkvæmisleikur þar sem viðstaddir standa í hring og skekja sig í takt við hljómfallið. Svo þegar menn eru orðnir leiðir á þessu er einum á fætur öðrum hrint í miðjan hringinn og honum gert að sýna það sem í sjer býr.

Fyrir forvitnissakir tók Ljenzherrann þátt í þessum leik og leið ekki á löngu áður en honum var hrint í miðjuna. Það sem fáir vita er það að vínarvalsinn er uppfinning langa langa langa afa Ljenzherrans og eru fáir betur til þessa dans fallnir en einmitt afkomendur hans í beinan karllegg. Er Ljenzherranum var hrint í hringinn auðnaðist honum rjett svo að grípa með sjer kústskapt sem hann dansaði svo við hinn fegursta vals. Á þessu augnarbliki stóð tíminn í stað og viðstaddir litu Ljenzherrann aðdáunaraugum þar sem hann sneri skaptinu tígullega hvern hringinn á fætur öðrum. Flaut hann um hringinn afar tignarlega og í fyrsta skiptið í lífi margra stúlknanna óskuðu þær sjer að þær væru kústskapt.

En allt hefir sinn tíma og þegar lagið var búið og Ljenzherrann búinn að hneigja sig og þakka kústskaptinu fyrir dansinn dofnaði dýrðarljóminn og raunveruleikinn blasti við. Veislugestir voru sviptir úr hinum fegurstu sölum evrópskra konungshalla og komnir aftur í sal Húnvetningafjelagsins, fyrir ofan fatahreinsunina Fönn, kammersveitin var þögnuð og Justin Timberlake farinn að syngja sitt vinsælasta lag.

Engin ummæli: