sunnudagur, 14. desember 2003

Ljenzherrann af Kaffisterkt vaknar upp við vondan draum.
Ljóst er að Ljenzherrann hefir lítið bloggað undanfarna daga og tileinkast það af því að nú seint í nóvember uppgötvaði hann að hann væri skráður í verkfræði, og þyrfti að taka jólapróf. Ekki eru þetta hans fyrstu jólapróf í verkfræði og lenti hann einmitt í frekar fyndnu atviki fyrir ári síðan þegar hann þreytti próf í línulegri algebru.

Prófin í háskólanum fara þannig fram að í allar stofur skaffar skólinn gamla konu og númeruð borð. Listar hanga svo frammi á gangi með upplýsingum um það hvar hver eigi að sitja.

Ljenzherrann mætti í fyrra í sitt fyrsta próf, línulega algebru, og þar sem að fátt fer meira í taugarnar á honum heldur en geðshræringin sem liggur í loftinu korteri í próf hafði hann með sjer sólgleraugu og minidisc-spilarann sinn og hlustaði á graðhestamúsík stillta eins hátt og unnt var í risastórum heyrnartólum.

Svo fór hann og kíkti á listann, sannfærði sjálfan sig svo um að honum bæri að setjast við borð númer tólf og við borð númer tólf skyldi hann setjast sama hvað tautaði og raulaði. Að þessu loknu kom hann sjer fyrir með tónlistina í botni og beið örlaga sinna með stakri ró, ólíkt samnemendum sínum, og virti fyrir sjer leikritið sem bar fyrir augum, taugaveiklað fólk í joggingbuxum og víðum peysum . Allir með A4 blöð sem að þeir flettu tætingslega í gegnum til að rifja upp Eigen-vektora eða Jakobi-fylki, vasareikna, pennaveski, ávöxt, súkkulaði eða gosdrykk.

Ljenzherrann ljet hugann reika er hann virti söfnuðinn fyrir sjer. Hávær rokkmúsíkin yfirgnæfði allan skarkalann, sem samanstóð af taugaveiklingslegaum stelpuröddum að hlýða hverri annarri yfir á ógnarhraða og fínum gaurum að athuga hvort að allir hafi það ekki bara gott og spyrja hvort að menn sjeu nokkuð stressaðir.

Það var einmitt á þessu augnarbliki sem að Ljenzherranum varð það ljóst að þetta er sama stemningin og ríkir rjett áður en stigið er upp í rútu á leið í langt ferðalag. Í kjölfarið fór hann að velta sjer upp úr því hvert þetta lið gæti verið að fara.

“Já hvert gæti þetta fólk verið að fara” hugsaði Ljenzherrann og sá fyrir sjer rútu beygja fyrir hornið sem myndi fara með þetta fólk í ferðalag. Bílstjórinn örlítið þybbinn og eins og í öllum alvöru rútuferðum er fararstjóri sem situr fremst með speglasólgleraugu og hljóðnema. Í hljóðnemann mælir hann,í óþökk allra, hræðilega brandara og leiðinlegar staðreyndir um það sem hann sjer í gegnum speglasólgleraugun.

“Og þá sagði lögfræðingurinn: “og hvar ætlar þú að fá verkfræðinga??” Ha????? Þið eruð í verkfræðinni er það ekki? ......Fjallið hjerna til vinstri heitir Hnopfellskambur og er móbergsstapi úr basísku bergi frá tertíer. En næst munum við stoppa við Gullfoss og leysa þar nokkrar línulegar, óhliðraðar, diffurjöfnur og kanski upphafsgildisverkefni líka, ef að þið eruð heppin!!! Eru ekki allir alveg örugglega með reiknivélar, pennaveski og minnisblöð???? Það heldégnú!!!! Þurfiði að pissa?, STOPP bílstjóri!!!! Enga feimni, stelpur hægramegin, strákar vinstramegin!!” Svo lætur hann bílstjórann keyra í burtu á meðan allt er í fullum gangi og stúlkur með brækurnar niðrum sig og strákar með rækjurnar blaktandi í vindinum horfast vandræðalega í augu. Þeir eru nú meiri kallarnir þessir fararstjórar.

En ekki stoppaði klukkan þó að Ljenzherrann ljeti sig dreyma og brátt tók hann eptir því að gangurinn hafði tæmst. Hann rauk því af stað og inn í stofu. Þar sá hann afskaplega gamla konu, varð afar ánægður, því að í háskólanum gildir sú regla að því eldri sem yfirsetukonurnar eru, því betra og af aldri þessarar af dæma var hann bara í býsna góðum málum. Svo arkaði hann rakleitt að borði tólf.

Við borð tólf hafði hinsvegar sest drengur lítill og pervisinn ef frá er talið afskaplega vel útilátið höfuðið og hefði það ekki fengið að grassera þarna í ró og spekt heldur verið fest á þennan litla búk hefði það talist verkfræðilegt þrekvirki. Hafði hann tekið allt úr pennaveskinu sínu og raðað því snyrtilega á borðið ásamt matvælum ýmiskonar og klukku, allt af stakri snyrtimennsku. Einnig hafði hann komið upp speglum þar sem að höfuðið varpaði ætíð skugga á reiknivjelina sem var ljósdrifin.

Ljenzherrann, færði spegil þannig að það slökknaði á reiknivjelinni og potaði í hann og fnæsti:
“Hvernig er það lúsablesinn þinn, veistu ekki að borðin eru númeruð?!!!”
-“tja ég á að....”
“Já áttu hvað?!! Þú átt allaveganna ekki að vera hjer!!!”
-“Afsakið...þú átt sennilega að vera hjerna, ég hef bara lesið vitlaust á listann..”
“Heyrðu góði, þúar mig ekki neitt!!! Þú skalt þjera almennilega menn!!!!”
-“Uuuuuuu.....”
“Já engar afsakanir, þú bætir best fyrir þetta með því að snáfa sem fyrst, já snáfaðu, óforbetranlegi kláðagemlingur!!!!”

Litli kroppur ruslaði nú í miklu hendingskasti draslinu sem hann hafði raðað svo fínt á borðið sitt ofan í poka og var á braut. Athygli allra beindist nú að ræflinum því að digurbarkalega rödd sína hafði Ljenzherrann ekki sparað.

Ljenzherrann tók sjer svo rjettstöðu, sló hælunum saman og öskraði skipun þess efnis að menn ættu að manna skriffæri sín. Hann settist svo við borðið og gerði sig líklegan til að glíma við prófið.

Litlikroppur kom þó aftur áður en að Ljenzherrann hafði náð svo mikið sem að rita nafnið sitt á prófbókina og var hann nú í fylgd afskaplega gamallar konu, og skal það ítrekað enn frekar að slíkar konur þykja alveg ómissandi ef halda skal próf í Háskóla Íslands.

Sú gamla gerði Ljenzherranum það ljóst að það væri hann sem væri í vitlausu sæti og sennilega hafi hann farið stofuvillt, en ekki hausfætlan.

Ljenzherrann brást ókvæða við, en sá þó fljótlega þann kostinn vænstan að hörfa af vettvangi með sem skjótustum hætti. Ef hann hefði byrst sig eitthvað við þá gömlu hefði hún sennilega drepist, og Ljenzherrann því orðið ábyrgur fyrir því að stytta líf hennar um tvær til þrjár vikur.

Ljenzherrann fann nú hvernig augu viðstaddra hvíldu á honum, manninum sem hafði komið inn með látum, látið borginmannlega en þurft svo að hörfa með skottið á milli lappanna.

Engin ummæli: