miðvikudagur, 3. desember 2003

Einn er sá staður sem að Ljenzherrann vildi síst vera á en það er árshátíð fína fólksins, þar sem myndi úa og grúa af fínum gaurum og stelpum sem saman væru þar komin til að sýna sig og sjá aðra. Menn myndu ganga á milli og spyrja hvern annan tilgangslausra spurninga og passa að þeir sjeu ekki of ýtnir, ekki of fáskiptir, ekki of fyndnir, ekki of leiðinlegir og þar fram eftir götunum. Ekkert skilyrði væri að þekkja þann sem talað væri við.

Heiðursræða um "veðrið úti" yrði flutt við algera þögn og óskipta athygli gestanna, svo væri þakið klappað af kofanum í kjölfar hennar, því fáir klappa meira en einmitt fínir gaurar. Ræðumaður myndi svo spyrja salinn, "Blessuð, hvað segði gott?" og allir myndu svara í einum kór: " við höfum það bara fínt, en þú?" -"ég hef það líka fínt, þá hafa allir það fínt!" myndi ræðumaðurinn svara stoltur, draga augað í pung og horfa fram í salinn sposkur á svip og örlítið útskeifur, svo yrði klappað ennþá meira.

Í lok kvöldsins væri hægt að gera samantekt á því sem að kom upp úr kafinu í þeim ómerkilegu samræðum sem fram fóru, svona rétt til að fína fólkið gæti fullnægt þeim brennandi áhuga sínum á því að fá staðfestingu þess efnis að allir hefðu það bara gott. Þessu gæti verið varpað upp á vegg, eitthvað í þessa áttina:

Arngrímur er alltaf í lögfræðinni, það er svolítið mikið að lesa hjá honum en hann er samt hress.

Berglind er enn að vinna hjá Sjóvá-Almennum og er hress með það, enda er rosalega gott að vinna þar.

Daniel segir allt fínt og á ennþá heima á Sogaveginum, enda er gott að búa þar, nóg af hressum nágrönnum.

Erla er í læknisfræðinni, það er soldið erfitt, en hún er samt hress.

Friðgeir töffari er farinn að vinna á gröfu og er búinn að taka meiraprófið sagði hann, hress í bragði og spurði hvað ég væri að gera.

Karen sagði að það væri skýjað úti, en hún væri bara hressari fyrir vikið.

Ljenzherrann af Kaffisterkt var að leita að neyðarútganginum og aðspurður kvaðst hann hafa það skítt, það væri alltaf verið að angra hann með heimskulegum spurningum og í óspurðum frjettum bætti hann því við að allir þarna inni mættu fara í fúlan pitt ellegar drepast úr hor.

Magnúsi fannst kveldið afskaplega vel heppnað og gat ekki annað en verið hress.

Lottu fannst þjónustan alveg meiriháttar fín og var ákaflega hress með lífið og tilveruna..
og svo frv...

Engin ummæli: