laugardagur, 8. nóvember 2003

Ljenzherrann heiðrar trje með nærveru sinni.
Eitt er nokkuð víst að fáir menn bregðast jafn illa við mótlæti og Ljenzherrann af Kaffisterkt, enda er hann konungur, alltjent í sínu eigin ríki.

Svo óheppilega vildi til í gær að þar sem Ljenzherrann hugðist spássera sjer til hressingar hafði bíll lagt uppi á gangstjettinni og hamlaði för gangandi vegfarenda. Flestir lögðu lykkju á leið sína án þess að velta frekar yfir þessu vöngum. Ljenzherrann af Kaffisterkt áleit þetta hinsvegar persónulega árás á sjálfan sig og tók þetta býsna nærri sjer.

Hann er einn af þeim mönnum sem hafa geitareðli og þykir krókurinn einungis betri en keldan, fái hann þá hugmynd sjálfur. Sje króknum hinsvegar þröngvað upp á hann er voðinn vís.

Eftir að hafa staðið í fimm mínútur og fnæst að bílnum afrjeð hann að skrifa illvirkjanum brjef.

Brjefið var svohljóðandi:
Kæri óþokki
Vjer erum eigi allskostar vissir hversvegna þjer kjósið að hrella oss með þessum hætti. Eigi vitum vjer til þess að vjer högum gert nokkuð á yðvarn hlut, en sennilega myndum við eigi muna eftir því hvort eð er.

Persóna yðar er sennilega öll in lítilfjörlegasta og fyrir hönd mannkyns vonum vjer að þjer sjeuð getulausir. Það ætti þó ekki að skipta máli þar sem úrþvætti eins og þjer komist sennilega hvort eð er aldrei upp á kvenmann, nema gegn greiðslu.

En að öllu kurteisishjali slepptu, má ekki benda yður á betra stæði?

( Hjer teiknaði Ljenzherrann afar nákvæman uppdrátt af ökumanni þessa bíls, lá hann á maganum. Bílinn var hinsvegar það kyrfilega á kafi í óæðri endanum að til að reka erindi sín hefðu ökumaður og farþegar þurft að skríða út um skottið, eins og hver annar njálgur.)

Vertu svo ekki að flækjast fyrir almennilegu fólki.
Með kveðju, Ljenzherrann af Kaffisterkt.


Hvort sem að Ljenzherrann hafði vakið athygli með tryllingslegum hlátri sínum eða ökumaðurinn einfaldlega lokið sínum erindagjörðum birtist hann einmitt þegar Ljenzherrann var í þann veginn að smella rúðuþurrkunni ofan á miðann. Glott, sem kötturinn í Lísu í undralandi hefði getað verið stoltur af, hvarf eins og dögg fyrir sólu. Í stað þess fór Ljenzherrann að hoppa tryllingslega nema hvað hann gerði hlje annað veifið sem hann notaði til að benda á ökumanninn og hlæja að hætti vitskertra.

Ökumaðurinn þreif miðann undan þurrkunni og brún hans seig með hverju orði sem hann las. Loks þegar hann hafði skoðað skýringarmyndina og þann ótrúlega sveigjanleika sem afturenda hans hafði þar verið gæddur trylltist hann.

Upphófst nú mikill eltingarleikur og eitt er víst að hefði ökumaðurinn náð Ljenzherranum hefði hann gert meira en að segja ,,klukk” og búist við því að verða eltur í samræmi við reglur slíkra leikja.

Ljenzherranum náði hann hinsvegar aldrei, enda er hann í toppformi og ekki í fyrsta skipti sem hann hafði þurft að hlaupa fyrir lífi sínu. Litli kallinn skaust eins og raketta yfir grindverk, undir runna og rauk upp í tré. Þar kom hann sjer haganlega fyrir og söng baráttusöngva við raust. Bílsstjórinn gafst fljótlega upp og sneri til eigin bíls. Er hann ætlaði að opna hurðina rak hann hendina í glaðning sem Ljenzherrann hafði skilið eftir handa honum undir húninum.

Engin ummæli: