mánudagur, 6. október 2003

Athugið, þetta er seinnihlutinn af bráðskemmtilegri frásögn, fyrrihlutinn er á 4. október.

Seinni hluti

Eg heyri viðkomandi ganga inn á hitt klósettið og loka á eptir sjer, girða flautandi niður um sig brækurnar og setjast. Plobbs, plobbs, plobbs heyrist yfir þilið og svo allt í einu hættir hann að flauta og um karlaklósettið bergmála digurbarkalegar bölbænir á framandi tungumáli, maðurinn var að fatta að pappírinn hjá honum var búinn.

Eins og nærri má geta olli þetta ævintýri hans miklum truflunum á því erindi sem eg var að reka þarna inni, með nokkuð farsælli hætti en greyið maðurinn, því að eg var gjörsamlega að springa úr hlátri. Það sem verra var að ef eitthvað hefði heyrst í mjer hefði eg sennilega verið rifinn upp af klósettpappírsbólstraðri setunni og fleygt inn á pappírslausa salernið af saltvondum og berrössuðum útlendingi þar sem hann hefði síðan lamið mig eins og harðfisk. Sennilega hefði eg fundist um kvöldið í fósturstellingunni, með þumalinn uppi í mjer, buxurnar niður um mig og með salernisbursta haganlega komið fyrir á stað sem fínar frúr vilja helst ekki tala um.

Þegar maðurinn hafði hrist klósettrúlluhaldarann sinn í sirka hálfa mínútu heyri eg að hann opnar hurðina í miklum flýti og sekúndu síðar er rifið taugaveiklislega og ítrekað í hurðarhúninn á klósettinu mínu. Þegar hann hafði sannfærst um að það væri læst rýkur hann til baka en á miðri leið er hurðin á sjálfu karlaklósettinu opnuð en henni er haganlega fyrir komið beint á móti pappírslausa salerninu. Angistarein frá sjokkeraðri konu klýfur loptið. Hálfri sekúndu síðar er hurð pappírslausa salernisins skellt með miklum glæsibrag og við tekur hálf mínúta af af vel völdum útlenskum blótsyrðum og Pede libero ( stappi í gólfið).

Á meðan á öllu þessu gengur hljómar í kallkerfinu lokakallið í flug 132 til Akureyrar og ekki verður okkar maður rólegri við það. Hurðinni hrindir hann upp með miklum látum og skellir henni svo jafnharðan aptur með síst minni tilþrifum en áður. Nú tekur við mikill hamagangur og í öllum látunum renna undir skilrúmið tætlur úr forsíðu glanstímaritsins “Whats on in Reykjavík”.

Þegar sitjanda hans er orðið fullkomlega ljóst hvað beri hæst í menningarlífi Reykjavíkurborgar, hvað kosti í strætó og sund og svo framvegis heyrist maðurinn hysja upp um sig brækurnar með hraðasta hætti, rjúka fram og þvo sjer tuldrandi um hendurnar.

Á meðan hann dekraði við sjálfan sig með að láta heitt loptið leika um hendurnar. hefur hann ábyggilega blótað í sand og ösku bæði mjer og manninum sem ákvað að setja þarna blásara í stað pappírsþurrkuskammtara.
Þegar maðurinn var rokinn út fór megnið af líkamsstarfssemi minni smátt og smátt í gang aptur eptir hálfgert lostsástand sem hafði skapast vegna kæfs hláturs. Nú gat eg loksins lokið erindinu og var ekki spar á pappírinn, það lá við að klósettið stíflaðist þegar herlegheitin runnu til sjávar.

Svo skaust eg út, ennþá laumulegar en eg hafði komið inn.

Engin ummæli: