sunnudagur, 28. september 2003

Undarlegar draumfarir hafa sótt á mig að undanförnu, sennilega vegna koffínskorts í heilaberki.
Einn af þeim undarlegri, sem ég man á annað borð eftir, dreymdi mig í gær.
Ég var orðinn einn af ræningjunum í Kardímommubænum og svaraði nafninu Jónatan, eins og ekkert væri sjálfsagðra. Draumurinn hófst á því að við vorum allir þrír í "hang-outinu" okkar og allt í drasli. Jesper fer síðan eitthvað að kvabba í okkur yfir allri þessari óreiðu, að það séu óhreinir kaffibollar og teskeiðar úti um allt. Kasper nennti sko ekkert að hlusta á hann Jesper greyið og skvetti framan í hann sjóðheitu kaffi og teskeið.
Á þessum tímapunkti átta ég mig á að þetta gangi ekki svona lengur, að platónsískt samband okkar hangi á bláþræði.
Ég fer því út í Rekstrarvörur, sem eru með útibú í Kardimommubæ, og geri innkaup.
Ég keypti kassa af hinum afbragðsgóðu Depa-kaffimálum og úrvals hrærum og þar með voru skítugir bollar og teskeiðar úr sögunni. Einnig keypti ég stóran brúsa af sturtusápu, klósettpappír og kenndi Kasper og Jesper að nota hvort tveggja.
Núna ilma þeir eins og vorgola.
Því næst pantaði ég utan á þá föt úr freemans vörulistanum, kynnti þá fyrir Bastian og Soffíu og öllu rjetta fólkinu rjetta fólkinu og áður en varði urðum við vinsælustu gaurarnir í öllum Kardimommubæ og ekki líður sú helgi að við förum ekki allir saman í einhverja fína veislu.

Engin ummæli: