mánudagur, 22. september 2003

Í dag ákvað ég að sporta mig svolítið, ákvað að rölta út á select til að athuga hverskyns kaffi þeir hefðu á boðstólum, spyrjast fyrir um hvort að þetta væri gott kaffi og einnig hvort að þeir hefðu eitthvað til að gera góða iðu. Einnig hugðist ég afla því sjónarmiði fylgis að depa mál væru hin bestu kaffimál og að hin mesta iða og ágæt skemmtan skapaðist af hrærum sömu gerðar.
Því miður uppfylltist ekkert af þessum markmiðum mínum því að bakvið hurðina hitti ég fyrir mann sem sagði mjer raunarsögu sína, óumbeðinn. Mann sem barðist fyrir rétti sínum, var beittur óréttlæti, þurfti að lúta höfði, kyngja stoltinu og meðfylgjandi botnfalli (sem er kanske ágætt gegn hiksta). Þessi maður var á sínum tíma góður og gegn þjóðfélagsþegn sem lagði sig í líma við að standa sína pligt gagnvart samfélagi og einstökum mönnum. Þó svo að hann hafi ekki látið bugast algerlega af þessari lífsreynslu er hann greinilega breyttur maður og bitur.
Hann sagði mér frá því að hann hefði týnt skrúfu, agnarlítilli skrúfu, og þegar hann ætlaði að kaupa nýja í staðinn var honum stillt út í horn og tilkynnt að annaðhvort keypti hann tuttugu skrúfur eða enga skrúfu!!!!!
Maðurinn var nauðbeygður til að lúta höfði og verða troðinn undir skó skrúfusalans. Til að kóróna alltsamant neituðu þeir að taka yfir á debetkortinu sem að þeir voru nú hvort eð er að blóðmjólka til hins ítrasta.
Eftir að hafa heyrt þessa sögu er mér það deginum ljósara að skrúfusala er einhver sú versta fjárplógsstarfssemi sem fyrirfinnst í þessari grimmu grimmu veröld.

Engin ummæli: