fimmtudagur, 14. maí 2009

Egypt

Íslands ógæfu verður ef til vill ekki allt að vopni, því nú um síðustu helgi, í einu af reykfylltari spilavítum Miðjarðarhafsstrandarinnar, var Ljenzherrann önnum kafinn við að láta undan grunnþörfum sínum. Yfirleitt er spilað upp á listaverk eða fornmuni með vafasama fortíð, en þetta kvöld áskotnaðist honum rétturinn að öllu sólarljósi í íslenzku efnahagslögsögunni. Hafði þessi auðlind verið veðsett af nafntoguðum athafnamönnum, sett í pant hjá ákveðnu gleðihúsi en síðan gengið kaupum og sölum millum fjársterkra langintesa uns Ljenzherrann vann það loks í bakkarat. Hefir Ljenzherrann þegar stofnað sjerstakt fjelag utan um fyrirtækið, Aulfroethuedl GmbH, með varnarþing og bækistöðvar í Vaduz.

Fyrst um sinn munu landsmenn ekki finna fyrir miklum breytingum, en frá og með komandi sumarsólstöðum ber að greiða Ljenzherranum af Kaffisterkt svokallað dagsbirtugjald fyrir afnot af sólarljósinu. Gildir það jafnt um alla þá ljóstillífun er Ljenzherranum þykir sýnt að fari fram á lögbýlum eða einkalóðum og eins gagnvart öllum þeim er kjósa að neyta sólarljóss með skynfærum sínum eða húðþekju. Lögblindir munu njóta afsláttarkjara, en þeim er eigi hugnast gjaldtakan býðst að klæðast sjerstökum varnarbúningum og goggles, sem sem hægt er að leigja af Ljenzherranum af Kaffisterkt gegn hóflegu gjaldi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir ahugaverd blog