fimmtudagur, 8. janúar 2009

Af helvízkum Silvestersiðum.
Ljenzherrann lagði land undir fót á gamlársdag, en kumpán nokkur hafði boðið honum í sleðareisu og Gamlársteiti. Reyndar fól þetta í sjer að Ljenzherrann þyrfti að vakna fyrir hádegi, og samþykkti hann því boðið með fyrirvara.Þótt ótrúlegt megi virðast hafði Ljenzherrann það og náði að drattast fram úr, troða handahófskenndu drasli í ferðatösku og hunzksast niður á lestarstöð. Eftir tveggja tíma skrölt var hann kominn á áfangastað, kynnti sig og var hampað fyrir framandi uppruna, en um leið vorkennt fyrir bágt efnahagsástand heimafyrir. Að þessu loknu settist hópurinn, 10 stykki af manneskjum sem ætluðu að eiga skemmtileg áramót saman, inn í smárútu og svo var haldið til fjalla. Ætlunin var að eyða deginum við sleðabrun og neyzlu nestis og heitra drykkja. Ljenzherranum leyst ágætlega á það, enda er hann hverjum manni sólgnari í te og skildist honum að farið væri upp með stólalyftu. Ekki reyndist mikil kúnst að stýra sleðunum, en það tileinkast öðru fremur af því að það er ekki hægt. Ljenzherrann hrósaði því happi yfir því að allir nema þýzka stúlkan hefðu sloppið ómeiddir frá þessu brambolti. En sú þýzka hafði komist í ónáð er henni varð á að spyrja Ljenzherrann hvort allir Íslendingar væru svona þöglir. Ljenzherrann svaraði því neitandi og kvað ástæðu fámælsku sinnar vera þá að álfarnir í skóginum í kring væru orðnir fremur pirraðir á þessu leiðinda gaggi í henni. "Er það þá satt að allir Íslendingar trúi á álfa?" spurði hún hálf hvekkt. Ljenzherrann igldi sig, horfði djúpt í augu hennar og sagði með ákveðinni röddu. "Ekki ætla ég að verða þess valdandi að þú tuðir meira en þörf er á, þeir heyra nefnilega svo skrambi vel blessaðir álfarnir." Fátt heyrðist í þeirri þýzku eftir það. Á heimleiðinni dreypti Ljenzherrann á fyrirtaks söngolíu af Paulanergerð og glotti yfir kaldlyndum hugsunum sínum.


Valþór stillir ostinum á ráspólinn.

Þegar til byggða var komið var haldið til glæsiíbúðar Valþórs ystasonar hvar hann bræddi ost ofan í mannskapinn af miklum myndarbrag. Var gerður góður rómur af fimum handbrögðum hans og var jafnvel haft á orði að fáir í Fríborgarkantónu væru lagnari Valþóri við að skafa raklett. Ljenzherrann var fullur aðdáun og gat ekki annað en samsinnt þessu. Honum þótti þó rjett að bæta því við að hún amma sín bakaði afbragðs pönnukökur. Hin þýzka hvarf hinsvegar inn á bað og eyddi drjúgum tíma við að punta sig. Tókst það með fyrirmyndar árangri. Svo miklum reyndar að einum þeirra, er hafði eytt með henni öllum deginum, varð það á að kynna sig aftur fyrir henni og það með miklum virktum og afbragðs sjentilmennsku. Ljenzherrann glotti.


Osturinn er svo snæddur með kartöflum og súrsuðu meðlæti.


Osturinn rann út eins og heitar lummur eða Lehmer chauds.

Að málsverði loknum upphefst skemmtilegur samkvæmisleikur þar sem matargestir pumpa upp úr hverjum öðrum, en væri slíkra varúðarráðstafanna ekki gætt væru líkur á kransæðastíflu umtalsverðar á næstu klukkustundum.Þegar maginn hefir verið tæmdur er sjampagnjerinn dreginn fram. Svissneska skipulagningin og nýtnin lætur ekki að sjer hæða. Á fastandi maga fæst hámarksnýtni á þessum verðmæta vökva og þá hefst sko skrallið.


Sjampanjer gerir hvern durt að dansmey.


Ólíkt Íslendingum sprengja helvízkir flugeldana á harðviðargólfum.


Og grípa síðan allt sem upp úr kemur.

Það vakti hinsvegar miklar grunsemdir hjá Ljenzherranum að fagnaðarlætin hófust tíu mínútum áður en fyrirfram auglýst áramótt áttu að eiga sjer stað. Þetta þykir honum sæta tíðindum, því ekki langt undan eru allar klukkurnar framleiddar og hæg ættu því að vera heimatökin.


Ekki þessi læti segir konan. Éttann sjálf, segir Valþór.


Sumir hjeldu ekki nákvæmt bókhald á því hvað vissi upp og hvað niður.


en allir skemmtu sjer þó vel.

Örmagna snjeri Ljenzherrann til aðseturs síns að kveldi nýjarsdags og reiknast honum til að á undanförnum sólarhring hafi hann mátt svara 12 sinnum fyrir hið gjaldþrota heimaland sitt.

Engin ummæli: