fimmtudagur, 23. október 2008

Undanfarnir dagar hafa verið viðburðaríkir í lífi Ljenzherrans. Í vikunni sat hann matarboð svissnesks kunningja síns sem bræddi ost í potti. Á meðal þeirra sem dýfðu göflum sínum í búsáhald þetta, Ljenzherranum til samlætis, var maður breyskur jafnt sem brezkur. Hafði hann atvinnu í vogunarsjóði í Lundúnaborg. Varð þeim tíðrætt um bankastarfsemi þrepaðs afgangs og ástand mála almennt. Greining Bretans á mótlætinu þótti Ljenzherranum áhugaverð, sem og álit hans á aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar íslenzku. Ljenzherrann innti hann jafnframt svara á því hvurjir hafi verið svo ósnotrir mjög að gerast mótaðilar afleiðuviðskipta við íslenzka ólígarka, en slíkt þykir Ljenzherranum jaðra við það að efna til veðmáls við miðlungsfeitan sígauna um hvað kunni að leynast í hægri buxnavasa hans. Er ekki loku fyrir það skotið að slíkt sje dæmi um þegar sú sem telji sætustu stúlkuna á ballinu reynist sjúskuð hórkerling í útgerð útrásarvíkinga, þegar öll kurl eru komin til grafar.

En tilgangur þessarar færslu var síður en svo að gera sígauna að strámanni. Daginn eftir auðnaðist Ljenzherranum að kíkja í stóra og mikla verksmiðju í þýzkalandi, þar snúast hjól atvinnulífsins sem aldrei fyrr og þekkja enga niðursveiflu. Ljenzherrann, sem löngum hefir dreymt um að gerast hlutaðeigandi í valdinu hinu fjórða, hafði myndavjelina á lofti og birti afraksturinn stoltur á síðu sinni. Daginn eftir barst skeyti að utan og Ljenzherranum varð ljóst að hann væri staddur í brimskafli. Var honum gert að fjarlægja myndir þessar af vettvangi alnetsins eða sæta, að óbreyttum breytanda, ákæru um iðnaðarnjósnir. Þótti Ljenzherranum þetta heldur ad hominem. Ljenzherrann telur þó að um smjörklípu hafi verið um að ræða og að viðkomandi iðjuhöldur hafi talið Ljenzherrann á sveif með Landsbankanum, eða þaðan af verri myrkraöflum ofan af Svörtuloftum.

Í morgun flutti Ljenzherrann fyrirlestur um túlkun jafnvægis í blönduðum leikáætlunum og þá jafnt sem æstæðu ástandi, einbeittu vali eða þegar blandaðar leikáætlanir eru meðhöndlaðar sem hreinar leikáætlanir í endurteknum leikjum. Reisti Ljenzherrann Pótemkíntjöld í kringum speki sína af slíkri bravúr að bekkurinn, sem ætlað var að fræðast, varð sem forviða kúahópur á að líta. Ekki einasta sjálfur prófessorinn þorði að hreyfa við andmælum, af ótta við að Ljenzherrann myndi reka allt saman ofan í hann, eins og hvurn annan óreiðumann, og velta honum svo upp úr fáfræði sinni með rökum sem einskis væri að skilja, og væri þá Ljenzherrann sjálfur ekki undanskilinn.

Eftir gjörning þennan ríkti mikil Þórðargleði í Ljenzherranum sem í miðjum hrunadansi sínum sá þó sóma sinn í því að útdeila kinnhestum, jafnt til þurfalinga og þeirra er honum þótti hafa gerst sekir um lýðskrum.

1 ummæli:

€iki sagði...

Vér höldum, vor kæri Ljenzherra, at eigi hafi í seinni tíð nokkrum tekist jafn snjöll rýni á hið breyzka í mannlegu eðli og jafnframt jafn skörp sýn á innri kenndir hins eilífa sjálfs í efnahagslegu tilliti :)

Þökkum vér yður samveruna á Hönggerfjalli nú síðdegis ok hlökkum til næstu bokku er líða fer aðt jólum, eins og í kvæðinu segir...