föstudagur, 10. október 2008


Pavillon Tómasar Frænda
Ljenzherranum þykir gaman að bera saman ræður stjórnmálamanna. Svissneskir stjórnmálamenn rembast við að tala þýzku með eins þykkum svissnezkum hreim eins og þeir geta mögulega stunið upp úr sjer, en það ku auka þeim vinsældir. Íslenskir stjórnmálamenn hljóma hins vegar eins og skipstjórar þegar þjóðarskútan þeirra lendir í brimskafli og þeim verður mikið í mun að tjá hneykslun sína á ástandinu.

Íslenzkir stjórnmálaflokkar þykja Ljenzherranum og kúnstug fyrirbæri. Einn talar um hvað stjórnmálamenn sjeu óhæfir og ómögulegir einstaklingar og að einkaaðilum farnist allt mun betur en þeim sjálfum. Fyrrihlutanum er Ljenzherrann hjartanlega sammála. Annar virðist ekki einu sinni hafa áhuga á því að stjórna sjálfur og virðist þykja hvað eftirsóknarverðast að allt slíkt verði gert frá Belgíu. Enn einn stílar inn á sjómenn, annar inn á bændur og sá þriðji er almennt á móti öllu því sem fram fer.

Það er á stundum sem þessum að Ljenzherranum þyki sem íslenskir stjórnmálamenn sjeu eins virkilega ömurleg fjölskylda sem þjóðin var svo óheppin að fæðast inn í, og situr þar af leiðandi uppi með því sá er jú háttur skipstjóra, að yfirgefa dallinn síðastir.

En til að lina löndum sínum þjáningarnar í svartnættinu býður Ljenzherrann lesendum sínum upp á erlendan lúxus, og það ókeypis. Hægt er að auka lífsgæðin töluvert með því að kalla þá hluti sem maður á nú þegar fegurri nöfnum. Þeim sem búa kunna í gámi eða skúr verður lífið töluvert bærilegra sje hann nefndur "pavillon." Fyrir þá sem búa uppi í rjáfri í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði mælir Ljenzherrann með orðinu "Atelier." Þegar öllu úr ískápnum er hent ofan í pott og það brasað og kryddað til að kæfa ílduna er hægt að bera á borð fyrirtaks "rataouille". Túmatsósa og beljuhakk kallast "ragout"þegar slíkt ratar á annað borð á steikarpönnu Ljenzherrans.

Annars hefir Ljenzherrann fyrir því mjög áreiðanlegar heimildir innan ríkisstjórnar og seðlabanka að eftir klúðrið með Rússalánið hafi aðgerð "Hófsóley" verið virkjuð, en vanhöld hafa verið á að hófs hafi verið gætt í sigurvissum Ólé-hrópum.

Engin ummæli: