sunnudagur, 16. desember 2007

Laos


Í liðinni viku þurfti Ljenzherrann að leita svara við áleitnum spurningum og gekk til fundar við aðstoðarmann kennara nokkurs (sem reyndar er yfiraðstoðarmaður prófessorsins, þess merka hálfguðs). Ljenzerrann kynnti sig og er hann var spurður um uppruna sinn sagðist Ljenzherrann vera kominn af norskum ribböldum og gífurmennum auk þess sem eitthvað af írsku blóði kynni einnig að flæða í æðum sínum, þar sem fyrrnefndir heiðursmenn höfðu af mikilli fyrirsjón staldrað við á Bretlandseyjum til að afla sjer kvonfangs og þræla. Leið þessara manna lá til óbyggilegs skers nokkurs og eftir rúmt árþúsund af vosbúð og óhóflegri skyldleikaræktun nefna þeir sig sem þar búa, Íslendinga.

"Já, já, Ísland segirðu, ég var nú barasta á Íslandi í sumar!" Síðan snjeri hann sjer við og ávarpaði klefafjelaga sinn. "Gunther, vissirðu að á Íslandi notar enginn reiðufé!" Gunther setur upp mikinn furðusvip "Já þeir strauja kortin sín í hvert einasta skipti sem þeir kaupa eitthvað, bensín, kók, bara nefndu það, strauja alltaf!!!" og svo lék hann hvernig Íslendingar strauja kortin sín í sífellu með miklum ýkjum og gáskafullu látbragði og auðsjeð þótti Ljenzherranum að fjarstæðukenndari hegðan hafði aumingjans maðurinn aldrei orðið vitni að.

Engin ummæli: