fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Að gangast undir bað.
Ljenzherrann skrapp til Köben um helgi liðna. Yfirskyn ferðarinnar var að fara á
tónleika með Muse en að lokum fór nú svo að mestum tíma var reyndar eytt á
knæpunni "Moose", sem reyndar er þess eðlis að menn eru etv ekkert mikið að
auglýsa ferðir sínar þangað, ef þeir þá muna eftir þeim á annað borð.
Ljenzherrann hefir ekki tölu á öllum þeim bjórum sem hann innbyrti, en þykir
líklegt á að fjórði ársfjórðungur hafi farið vel af stað hjá þeim fjelögum
Carlsberg og Tuborg. Einnig var Gamli frekur til glöggs síns að vanda og að sjálfsögðu sá
hann sóma sinn í að ræsa út landslið fyllibyttna til að hafa ofan af fyrir gesti
sínum frá Sviss.

Frómt frá sagt eru Íslendingar að sönnu hvað drykkfelldastir í sínum forna
höfuðstað þó undirrót þessarar drykkju hafi nú breyst frá minnimáttarkennd
skattpíndra nýlenduræfla yfir í dólgslæti gráðugrar og nýríkrar herraþjóðar sem
ber ekki virðingu fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Sást það ágætlega er Ljenzherrann
sigldi upp og niður Strikið aftan á bögglaberanum hjá manni dönskum. Mætti ef til
vill segja að þar hafi haltur leitt blindan, því hjólreiðagarpurinnvar reyndar
var ekki í betra ástandi en svo að Ljenzherrann þurfta að sinna hlutverki
hjálpardekkja, jafnframt því að hrópa varnaðarorð til annarra vegfarenda á minnst
fimm tungumálum, þar af einu sem var hans eigin uppfinning. Að sjálfsögðu var
enskan lituð þeim argasta danska hreimi sem Ljenzherrann gat stunið út úr sjer og
á ákveðnum tímapunkti var ökulag danans orðið svo skuggalegt að Ljenzherrann
hafði hann grunaðan um að vera sjálfsmorðshjólreiðamann frá Hillerup-samtökunum,
sem betur eru þekktir sem "bögglaberaböðlarnir". Ljenzherrann stje því báðum
fótum niður og horfði á eftir Dananum brotlenda fáki sínum með miklum tilþrifum á
ofan í skurði með opnum frárennslislögnum. Sjálfur fór Ljenzherrann á knæpuna
"Moose" ásamt manni sem sagðist vera að vinna að gerð heimildarmyndar um sjálfan
sig. Er Ljenzherrann þeirrar skoðunar að margar beztu senur þeirrar myndar hafi
orðið til þetta kvöldið, en líklegt þykir þó að Ómynnishegrinn hafi hnuplað
handritinu af kvikmyndagerðarmanninum.

Í gær þvoði Ljenzherrann Kaupmannahafnarklæði sín og þykir honum hætt
við því að viðvörunarkerfi í skólphreinsistöð Zürichborgar hafi farið í gang
vegna of hárrar konzentrasjónar af spilliefnum. Væri þetta þá í annað skipti sem
slíkt gerðist í þessari viku, en hið fyrra væri þá að loknu baðinu sem
Ljenzherrann gekkst undir skömmu eftir heimkomu.

Engin ummæli: