miðvikudagur, 29. ágúst 2007

_MG_056888

Vekjaraklukkan hringdi stundvíslega klukkan 07:15 og var það í fullu samræmi við það hvernig hún hafði verið stillt kvöldinu áður. Mæting var í túrinn klukkan níu og við hugðumst fá að geyma töskurnar okkar á hótelinu yfir daginn, en um kvöldið áttum við miða með lest til Moskvu. Þar sem allt okkar hafurtask lá í jafndreifðu lagi um allt herbergið, var eini morgunverðurinn sem við gátum leyft okkur nokkur glös af ávaxtasafa af mismunandi uppruna. Hótel í Sovietríkjunum fyrrverandi eru ef til vill sá staður þar sem tíminn hefur staðið hvað helst í stað. Pappírsvinnan við innritun jafnast fyllilega á við umsókn um svissneskt dvalarleyfi og er framkvæmd af önugum konum með fjólublátt hár og þóttasvip. Útlendingar, eða jafnvel viðskiptavinir yfir höfuð, eru ekki vel liðnir.

_MG_0430

Með mikilli skriffinsku og önuglegheitum af hálfu fjögurra mismunandi aðila, hverjum með skýrlega afmarkað hlutverk,náðum við að koma töskunum í geymslu og fyrir utan og þar beið okkar smárúta, sem var greinilega ekki á leið í sína jómfrúarferð. Fjegráðugur umsjónarmaður hirti af okkur seðlabúnt sem hraðbankinn hafði verið í dágóða stund að telja, og svo var haldið af stað. Smám saman þynntist Kænugarður út og eftir því sem fleiri skilti vísuðu til til Chornobyl urðu yfirgefin þorp og bóndabýli meira áberandi. Að lokum vorum við komin að eftirlitshliðinu við upphaf 30 km lokunarsvæðisins. Var inspeksjónin afar gaumgæfileg, en jafnframt því að bera saman vegabrjef við eigendur þeirra kíktu grafalvarlegir eftirlitsmennirnir í farangursgeymslur og önnur skúmaskot.

Chornobyl, Ukraine

Í Chornobylborg beið okkar maður í hermannaklæðum, sem studdi sig upp við ljósastaur. Þetta reyndist vera leiðsögumaðurinn okkar og var hann nær dauða en lífi af þynnku. "Yuri" sagði hann og rjetti fram þvala hendina. Teymdi hann okkur síðan inn í fundarherbergi nokkuð sem var eins og klippt út úr kvikmynd um stríðið kalda og fyrir tuttugu árum hafa vafalaust komið þar saman háttsettir menn með mikinn vanda sjer á höndum. Þar uppi hjengu ýmsar skýringarmyndir á rússnesku. Stöðvaði Yuri stutt við hverja og eina, en í stað þess að útskýra þær stóð hann bara kjurr og ranghvolfdi í sjer augunum. Ekki var verandi nálægt honum vegna áfengisandremmu og það eitt að halda jafnvægi var greinilega nægur starfi fyrir vakthafandi heilafrumur hans.

Chornobyl, Ukraine

Að þessu loknu var blásið til hádegisverðar. Var hann svo vel útilátinn, og borinn á borð af svo mikilli auðmýkt, að grunsemdir vöknuðu í brjósti að hann væri hugsaður sem okkar síðasti. Yuri tók það sjerstaklega fram að öll matvæli væru flutt inn af hreinum svæðum og flúði síðan matarilminn í miklu snarhasti. Matsalurinn var fullur af einkennisklæddum hermönnum, sem störðu hljóðir ofan í súpuskálarnar sínar. Þrem rjettum og kaffi mettari gerðum við okkur vonir um að góð magafyllin myndi etv. draga úr verkan penetrerandi gammageislunarinnar sem beið okkar handan við hádegið, þögul sem gröfin.

Chernobyl Kitten

Chornobyl kjarnorkuverið samanstóð af fjórum RBMK-1000 kjarnaofnum og þegar slysið var, var verið að byggja tvo í viðbót. RBMK kjarnaofnarnir voru sovijetsk hönnun og framleiðsla og var raforkuframleiðslugeta hvers um sig 1.000 MW. Til samanburðar má nefna að með Kárahnjúkavirkjun verður virkjað vatnsafl á Íslandi um 1.800 MW. Með ofnum 5 og 6, sem voru í byggingu, hefði Chornobyl orðið stærsta kjarnorkuver heims. 26. apríl 1986 stóð til að slökkt yrði á ofni 4 vegna hefðbundins viðhalds og var tækifærið nýtt öryggisprófana á honum. Tímasetningin hefði ekki getað verið verri, því kjarnaeldsneytið er einmitt óstöðugast við enda líftíma síns og afleiðingarnar þekkja allir.

Chornobyl, Ukraine

Niðurstaða þessara prófana varð stærsta kjarnorkuslys sem maðurinn hefur þurft að glíma við. Stjórnvöldum tókst að hylma yfir slysið í nokkra daga, eða allt þar til sænskir vísindamenn fóru að greina aukna geislun og vöktu á því alþjóðlega athygli. það var þó um seinan því geislavirkt skýið hafði þegar mengað hálfa Evrópu. Fyrstu fórnarlömb slyssins voru slökkvuliðsmennirnir sem voru á vakt þessa örlagafullu nótt. Allir dóu þeir úr geislun. Hreinsunarstarfið var í höndum hersins og þúsunda sjálfboðaliða úr Sovjetríkjunum gervöllum. Þessir menn eru þekktir sem liquidators, ungir menn sem eyðilögðu líf sitt með því að þrifa upp kjarnaeldsneyti með berum höndum. Orðið Bio-ROBOTS var notað yfir mennina sem unnu við byggingu skýlisins og inni í því. Opinber tala fórnarlamba er 31, en óopinber þúsundir. Sennilega verður aldrei hægt að segja til um fjölda fórnarlamba fyrir víst.

Chernobyl

Spennan var orðin þrúgandi, þegar við settumst upp í bílinn og ókum af stað. Fyrsti viðkomustaður var fyrrverandi fótboltaleikvangur Chornobylborgar, en núna hýsir hann nokkur hágeislavirk ökutæki, sem notuð voru við björgunarstarfið, og minnismerki um slysið. Við nálguðumst þessi ökutæki af óttablandinni virðingu, en hún fauk í veður og vind er ég spurði Yuri hvort Geigerteljarinn myndi taka kipp í námunda við hin öldnu stríðstól. "Lets see" sagði hann og ráfaði í átt að einum skriðdrekanum, með mig í ákveðinni fjarlægð fyrir aftan sig. Viti menn, Geigerteljarinn fór að pípa tíðar heldur en málmleitarhlið í bandarískum grunnskóla.

Chernobyl, Ukraine

Eftir varðhlið að 10 km lokunarsvæðinu komum við að skipakirkjugarði, þar sem fjölmörg fley eyða ævikvöldinu eftir að hafa flutt sementið sem notað var til að steypa utan um kjarnakljúfinn eftir slysið. Voru þau mun ryðgaðri en ætla mætti eftir svo stuttan tíma.Að þessu loknu lá leiðin að slökkvistöðinni í Chornobyl, þar sem minnisvarði var reistur um alla þá sem ljetu lífið við að ráða niðurlögum eldsins eftir sprenginguna. Margir þessara manna voru vísvitandi sendir út í opinn dauðann og án hlutdeildar þeirra hefði þetta slys getað haft mun verri afleiðingar. Þykir þó flestum nóg um.

_MG_0522

Minnisvarðinn var sjerdeilis áhrifaríkur og ekki var upplifanin minni er ókláraðir kæliturnarnir fyrir ofna 5 og 6 fóru að birtast við sjóndeildarhringinn. Geigerteljararnir tóku reglulega við sjer með miklu pípi og þegar nær var komið sáust skriðmótin og byggingarkranarnir sem blöktu letilega í vindinum, eins og skilið hefði verið við þá í gær. Ef lokið hefði verið við þessa stækkun, hefði Chornobyl kjarnorkuverið orðið stærsta kjarnorkuver veraldar.

Bifreiðin stöðvaði og Yuri sagði okkur að koma út. Hann sagði að eftir slysið hefði verið skipt um jarðveg undir veginu, en þar fyrir utan væri geislavirknin margföld. Hann bað hugaða að fylgja sjer og klofaði yfir vegriðið. GRV fylgdi mjer fast á eftir, en eftir að Yuri bannaði honum að koma með, á þeim forsendum að hann væri í kvartbuxum ákváðum við báðir í hljóði að verða eftir á malbikinu. Með sígarettuna lafandi úr munnvikinu hjelt Yuri hinsvegar áfram í leit sinni að hæsta útslaginu á Geigerteljaranum. Eftir smá stund kom hann rogginn til baka, tók sjer tíma til að stappa duglega niður fótunum og dusta af sér áður en hann sagði niðurstöðu mælinga sinna eftir hæfilega langa þögn. 4.000 Roentgen á klukkustund, hundraðfallt það sem álitið er skaðlaust.

Nær hjeldum við og brátt var sjálf kistan í augnsýn, sem steypt hafði verið utan um rústir kjarnaofnsins. Fá mannvirki hafa kostað jafn mörg mannslíf, og fá mannvirki hafa bjargað jafn mörgum frá örkumli og dauða. En jafnvel í dag er Chornobyl tikkandi tímasprengja því rigningarvatn og snjóbráð seytla inn um óteljandi sprungur og göt og hvelfingin sjálf er talin vera að hruni komin. Chornobyl gæti vaknað aftur hvenær sem er.

Chornobyl, Ukraine

En jafnvel þó að búið væri að jarðvegsskipta á þessu svæði, líkt og gert hafði verið við veginn, stökk Geigerteljarinn í óþekktar hæðir. Okkur varð ómótt og vildum helst komast á brott hið fyrsta. Á túni rjett hjá lá hinsvegar vinnuflokkur í hinum meztu makindum, en stóð fljólega upp eftir að við komum og hjelt áfram að slá blettina í kring.

Hvergi eru afleiðingar slyssins synilegri en í borginni Pripyat, sem var í einungis 2 mílna fjarlægð frá kjarnorkuverinu. Pripyat var ætlað að vera útópía og framtíðarsýn Sovjetríkjanna. Borgin var ekki yfirgefin fyrr en 36 stundum eftir slysið, en einungis tók tvo tíma að flytja á brott alla 49.000 íbúa hennar. Allar eigur borgarbúa voru skildar eftir og borgin gefin tímanum á vald. Smátt og smátt hefir öllu nytsamlegu verið stolið þaðan og eftir standa hálfglerjaðar og yfirgefnar Sovijetblokkirnar innan um taumlausan trjágróður. Einkar drungalegur staður og dapur minnisvarði um hina sósíalísku útópíu sem henni var ætlað að vera. Yuri, sem fram að þessu hafði haft sig til hljes, og hvílt höfuðið ofan á mælaborði bifreiðarinnar minntist Þarna í fyrsta skipti á það að við hefðum eytt of miklum tíma á fyrri stoppum. Nokkrum mínútum síðar rak hann okkur inn í bíl og sauð þá á mannskapnum, enda er Pripyat áþreifanlegasta birtingarmynd slyssins og það sem flestir voru komnir til að sjá. Geislunin í Pripyat var þó með því hæsta sem við urðum fyrir þennan daginn.

Pripyat, Ukraine

Pripyat, Ukraine

Síðasta stoppið var í einu af þorpunum sem eru í byggð innan lokunarsvæðisins, en íbúar þess fluttu inn aftur einungis einu ári eftir slysið. Þau höfðu svo sem ekki miklu að tapa. Geislunin á svæðinu er mun háðari ríkjandi vindáttum fyrstu dagana, heldur en einskærri fjarlægð frá kjarnorkuverinu og til allrar lukku slapp þorpið þeirra svo til algerlega. Var oss boðið í bæ og sú gamla reiddi fram veitingar í formi heimabruggaðs vodka og niðursneiddra gúrkna og bjúgna. Lítið gekk á glösin, því sú gamla snjerist í kring um okkur eins og fellibylur og bætti á eftir því sem við drukkum.

Chornobyl, Ukraine

Að launum fjekk hún kort af afstöðu íslands gagnvart umheiminum, en undir það laumaði ég síðan restinni af úkraínsku hrívnunum mínum. Í Chernobylborg hoppaði leiðsögumaðurinn út, sennilega þyrstur í meiri vodka, enda líklega fátt annað við að vera á þessum dapurlega stað.

Chornobyl, Ukraine

Áður en okkur var hleypt út af svæðinu var bifreiðin skoðuð bak og fyrir og geislun okkar mæld í þar til gerðum tækjum. Í þrumuveðri og úrhellisrigningu ókum við til Kænugarðs, og seinna um kvöldið vorum við einkalæknirinn komnir í lestina til Moskvu. Sjaldan um mína hunds og kattartíð hefur mér fundist ég vera jafn óhreinn eins og eftir þessa ferð. Varla var búið að reka í gír fyrr en ég var kominn inn á klósett, búinn að reyta mig úr öllum fötunum og farinn að þvo mjer sem mezt ég mátti með þvottapoka í boði rússneska lestarfjelagsins. Fötin fóru ofan í plastpoka sem bundið var rækilega fyrir og stungið ofan í innstu afkima bakpokans.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Just want to say what a great blog you got here!
I've been around for quite a lot of time, but finally decided to show my appreciation of your work!

Thumbs up, and keep it going!

Cheers
Christian, iwspo.net