föstudagur, 10. ágúst 2007


Ljenzherrann fór í sumar landleiðina frá bækistöðvum sínum í Sviss til Kína. Í heildina voru þetta 10.785 km en með skreppitúrum eitthvað nálægt 12 þús. Meðal áfangastaða voru Budapest, Kænugarður, Chernobyl, Moskva, Yekaterinburg, Irkutsk, Olkhon-eyja, Ulan Ude, Ulan Bator og Peking.

22. júlí 2007
Það var mikill hugur í mannskapnum, enda hafði lengi verið beðið eftir þessum degi og mikið hafði Ljenzherrann og hann sjerstaki læknir lagt á sig dagana á undan til að deyfa meðvitund og tímaskyn með áfengi. Eftir þjóðlega svissneska máltið, Fondue og Raclette, var haldið út á lestarstöð til móts við EN 467 til Budapest.

Varla var lestarstjórinn búinn að reka í gír fyrr en Ljenzherrann var búinn að slíta tappann úr dýrindis kampavínsflösku og skenkja því í þrjú plastglös, sem ungverska lestarfjelagið ehf. hafði ásamt ropvatni látið í tje af mikilli útsjónarsemi .

Ekki bar þó allt kampavínið gæfu til að rata í plastglösin fyrrnefndu, heldur fóru nokkrir dropar með mikilli eftirsjá í gólfið og urðu eftirleiðis mikilvægur þáttur í andrúmslofti klefans, í stað þess að sljóvga meðvitund, eins og til var ætlast. Ljenzherrann átti eitt glasið, læknir hans annað, en hið þriðja var handa klefafjelaga þeirra, ungverskri stúlku, sem að eigin sögn lagði stund á ungverska þjóðdansa, en var sterklega grunuð af skandinövum um að vera af sígaunaættum. Ljenzherrann svaf á veskinu sínu þá um nóttina.


Bölvaður draugagangur var í lestinni. (læknirinn að sótthreinsa sig og sín tól vegna sígaunans)

23. Júni 2007
Vöknuðum í Austurríki og jafnvel þótt okkur hafi þótt Kampavínið klárast óþægilega fljótt, hafði það þó haft næga verkan til þess að yfirvaraskeggjaði karlinn, sem læddist inn í klefann seinna um nóttina, reyndist vera kona. Út um gluggan blöstu við beitiskiptir akrar og vindmyllur, læknirinn hóf þá og þegar sjálfslækningar gegn frjóvkornaofnæmi. Eftir að landamæraverðir beggja ríkja höfðu marsjerað um lestina hurfu akrarnir og vindmyllurnar fyrir einsleitum verksmiðjubúskap og strompaskógi. Læknirinn hætti þá samstundis að þjást af frjóvkornaofnæmi en fjekk í staðinn áhyggjur af því hvort hann væri að fá hið "svarta lunga".

Við komu á Kileti lestarstöðina vakti hin mikla tíðni húðexems athygli og varla mátti miklu muna að læknirinn gerðist ráðgefandi og umfangsmikill útgefandi lyfseðla. Ljenzherrann rjett náði að rífa hann á brott, enda hafði hann ætlast til að þessi lyfseðlablokk yrði notuð til að vinna bug á hans eigin krankheitum, ekki annarra.

Budapest

Budapest reyndist annars ómerkileg, fyrir utan sjerdeilis prýðilega nautasteik og þetta marsípansafn:

Marcipan Museum -Budapest
Fígúrur úr marsípani. Kjartan var ekki langt undan, að telja fram.

"Kastalahæð" reyndist hin meztu vonbrigði, en með hæfilegu magni af bjór, uppáskrifuðu af lækninum, og heimsókn á marsípansafn var höfuðborg Ungverjalands bjargað frá yfirvofandi allsherjarvonbrigðum. Marsípansafnið var loftkælt og því hinn ákjósanlegasti staður til að vera á, þrátt fyrir að sumar marsípanuppstillingarnar hafi verið "óþægilegar". Í Budapest voru þó allmargar vísbendingar, sem full ástæða væri til að kanna nánar.

Budapest Keleti Trainstation

Þess fegnir að yfirgefa þessa döpru borg hjeldum við á lestarstöðina þar sem miði vor vísaði á hrörlegan rússneskan lestarvagn. Stoltur umsjónarmaður, hann Sergei, virtist þó líklegur til þess að varna okkur inngöngu á forsendum eigin geðþótta. Reyndist hann eins dæmigerður rússneskur embættismaður og hægt væri að hugsa sjer, hávaxinn, nefstór og illur til augna og munns. Er lestin mjakaðist af stað voru brakirnir og brestirnir slíkir að halda mætti að Ljenzherrann, og hans sjerstaki einkalæknir, væru staddir í rússneskum kafbáti, á þreföldu hönnunardýpi. Voru þeir báðir farnir að huga að útgönguleið úr þessari votu gröf sjúskaðs viðarpanels og gauðslitins, rauðs blúndumynstraðs áklæðis.

Hugguðum við okkur við það að þurfa ekki að deila klefa vorum með ókunnugum og hjeldum upp á það með baði til að slá á meztu svitafýluna sem hertekið hafði óloftræstan vagninn. Læknirinn reið á vaðið og vætti sokka sína í vaskinum og strauk sjer með þeim hætti sem þeim einum er unnt, er hafa jafn mikla þekkingu á mannslíkamanum og hann. Sjálfur brúkaði Ljenzherrann þvottapoka, sem til slíks var ætlaður, enda ekki jafn upplýstur um mikilvægi jafndreifðrar bakteríuflóru og læknirinn. Tóku þeir síðan til við að gera bjórnum góð skil, sem keyptur hafði verið til ferðarinnar. Þegar hann var vel á veg kominn rak Pótemkín litli, ljóshærður og pervisinn stráksi um fermingaraldur, inn höfuðið en hvarf aftur. Skömmu síðar gerði Sergei innrás í klefann og gerði tilkall til miðkojunnar fyrir hönd Pótemkíns litla. Leist Pótemkín sýnilega lítt á hina heimaríku samferðamenn sína, tvo snoðaða víkinga, og fjall þeirra af tómum bjórdósum.

Engin ummæli: