sunnudagur, 12. ágúst 200724. júní 2007, Úkraína.
Fagur ölsvefn tveggja víkinga og grunnt dott rússnesks strákræksnis var truflað skömmu eftir miðnætti er hersveit landamæravarða gerði innrás í lestarklefann og heimtaði að fá að kíkja í þau vegabrjef sem þar kynnu að leynast. Töluvert vantaði upp á mannasiði og kurteisi þessara manna og ekki voru starfsbræður þeirra frá Úkraínu skárri. Ljenzherrann og hans sjerstaki læknir voru satt að segja bara yfir sig hissa að hamförum þessum loknum og þess fegnastir þegar brakið og brestirnir hófu að heyrast aftur, sem gaf annaðhvort til kynna að lestin væri komin í brotajárnspressu, eða lögð aftur af stað.

Ein af hinum undurfögru lestarstöðvum Úkraínu

Stuttu seinna stöðvaði lestin aftur og töluvert gekk á. Með miklum hávaða og látum var vagninn hífður upp og hjólabúnaðurinn barinn undan honum. Þessi landamæri mörkuðu einnig mörk Sovietríkjanna sálugu, en megnið af lestarteinum Evrópu er með sporvídd upp á fjegur fet, áttaoghálfatommu, en fyrrverandi Sovjetlýðveldi ásamt Mongólíu, eru með 5 feta sporvídd. Því þarf að skipta um hjólastell á vögnum sem þvælast þar á milli. Miklar vonir voru bundnar við að hávaðinn í vagninum myndi minnka á sinni náttúrulegu sporvídd, en þær vonir brustu um leið og lestarstjórinn rak í gír.

Dagurinn þar á eftir leið í móki, er meðlimir leiðangursins, Ljenzherrann af kaffisterkt og hans sjerstaki einkalæknir, hristust lárjettir eftir úkraínskum torfæruteinum. Mókið fyrrnefnda var þó ekki síður komið til vegna bjórdrykkju en bágs svefns. Um 14:00 gáfust þeir fjelagar upp á því að lepja lárjettir í kojum sínum og var því Pótemkín litli rekinn fram á gang, til að hægt væri að breyta rúmi hans í sófabak, en læknirinn hafði samþykkt stuttu áður að breyta sínu í sessu. Hafði þetta í för með sjer mikið rask fyrir báða aðila en Ljenzherrann samhæfði aðgerðir og skipaði fyrir ofan úr efstu koju. Fóru tilskipanirnar fram á jafnt íslenzku jafnt sem þýzku, en Pótemkín litli virtist gegna skipunum á báðum málum. Sjálfur þurfti Ljenzherrann ekkert að gera, enda var hann upphafsmaður alls þessa vesens.


Ódýrasti fáanlegur bjór í Ungverjalandi, Adambrau Premium.

Í þessum nýju stellingum gekk bjórdrykkjan mun hraðar, enda myndaði vjelinda nú hagstæðara horn gegn þyndgarsviði jarðar fyrir vökvaflutning. Hvor um sig höfðu þeir áætlað bjórmagn til fararinnar. Hafði Ljenzherrann beitt tölfræðilegum aðferðum en læknirinn lífeðlisfræðilegum slumpreikningi. Munaði þar talsverðu á milli, en ágreiningurinn var leystur í bróðerni hinu mezta og ákveðið að hærri talan skyldi gilda. Eini gallinn við þetta fyrirkomulag að töluvert þurfti að hafa fyrir því að gæta jafnvægis í vökvabúskap. Ekki deigur dropi fór til spillis og eftir því sem á leið tók Pótemkín litli að sækja meira í eigin fjelagsskap og dvaldi langdvölum fram á gangi. Voru samskiptin það sem eftir var ferðar, einungis að kinka til hans kolli er leiðangursmenn áttu erindi á klósettið.


Pótemkín litli að klaga.

Salernisaðstaðan í þessu forna stafnfleyi rússneska lestarflotans var einnig kapituli út af fyrir sig. Hún samanstóð af setu úr burstuðu stáli og gati niður á lestarteinana. Í stað þess að þrífa þessi ágætu salerni sín, lá umsjónarmaðurinn, provodnik á rússnesku, flatur í bæli sínu og yrkti sms ljóð til fjelaga sinna í vögnunum aðliggjandi. Yrkisefnin sótti hann í eigin reynsluheim, tilfinningalíf og samanburð á klósettpappírs og sápunotkun farþega sinna. Ljenzherrann gerði einungis eina tilraun til að míga ofan í þetta amboð að karlmannasið, en allt sem hann sendi þangað ofan í, fauk í fangið á honum aftur. Þær aðferðir sem eftirleiðis voru notaðar við þvaglát verða ekki til umfjöllunar á opinberum vettvangi og líklegast ekki til þess fallnar að kæta herra Provodnik.

Um 20:00 renndu Ljenzherrann og hans sjerstaki einkalæknir í hlað í Kænugarði og í merkilegheitum sínum bjuggust þeir við höfðinglegum móttökum. Svo reyndist ekki vera og öll þeirra leit að móttöku reyndist árangurslaus. Afráðið var að kaupa þá og þegar miða til Moskvu og uppfullir minninga um það hve Pótemkín litli hafði verið frekur og erfiður viðureignar varð fyrsti klassi (Spalny Vagon) fyrir valinu. Að þessu loknu var haldið niður í bæ, í leit að gististað þeim er læknirinn hafði bókað og einn hafði vitneskju um hvar væri.


Ljenzherrann hafði sig nú til áður en hann kom til stórborgarinnar.

Ljenzherrann heimtaði að brúka neðanjarðarlestarkerfið, á meðan lækninum þótti leigubíll vera meira við sitt hæfi. Með fúkyrðum og svívirðingum náði Ljenzherrann þó sínu fram og stikaði keikur ofan í myrkviði Kænugarðs. Þrátt fyrir að það sje töluvert erfitt að standa að landkönnuðasið í rúllustiga á leiðinni niður, horfandi keikur fram á veginn, tókst Ljenzherranum ágætlega upp. Læknirinn stóð hinsvegar hokinn nokkrum tröppum ofar, hundfúll. Ljenzherrann tók fagurt tenórhróp með víbrató er hann steig úr rúllustiganum og gekk inn á brautarpallinn. Hann þagnaði hinsvegar alveg þegar í ljós kom að engar merkingar voru aðrar en á kýrillísku letri. Læknirinn bölvaði. Eftir mikinn samanburð, karp og jafnvel rifrildu urðu leiðangursmenn loksins á eitt sáttir um í hvaða lest skildi haldið og eftir að hafa troðið sjer inn með þvögunni hljómaði vjelræn rödd á framandi máli og síðan skelltust hurðirnar með miklu afli. Var atgangurinn slíkur að jafnvel hin vítamínbættustu hreystimenni hefðu klippst í sundur, þær hefðu jafnvel náð að búta Ljenzherrann líka.


Troðin neðanjarðarlest í Kænugarði. Læknirinn álútur á vinstri hönd, hann var í uppáhalds Hansaplastbolnum sínum.

Lestarnar í Kænugerði eru troðnar og á hverri stoppistöð gefst aðeins örskotsstund á meðan múgurinn treðst út, og var Ljenzherranum brugðið er læknirinn skaust út rjett áður en óþolinmóðir Úkraínumenn ruddust inn og þrýstu Ljenzherranum aftur í vagninn. Hans sjerstaki einkalæknir glotti, Ljenzherrann hóf útsendingar á merkjamáli. "Þú bíða hér, ég kem" gaf Ljenzherrann til kynna rétt áður en hurðin skelltist. Upphófst nú hin mezta satýra þar sem Ljenzherrann og hans sjerstaki einkalæknir fóru ítrekað á mis, reyndar gaf einkalæknirinm aldrei fullnægjandi skýringar á ferðum sínum og grunar Ljenzherrann að læknirinn hafi yfirgefið sig þarna viljandi, vitandi það að hann sem handhafi hótelvitneskju hefði yfirburða samningsstöðu og þar með komið vilja sínum fram í hinum ýmsu málaflokkum, sem Ljenzherrann hafði hingað til einokað með frekju og yfirgangi. Læknirinn hafði til dæmis viljað búta Pótemkín litla niður í varahluti, en Ljenzherrann harðneitaði því, þar sem þeir höfðu engan klaka.

Það setti hinsvegar talsvert strik í reikninginn að Ljenzherrann hafði ekkert virkt símtæki, þannig að einkalæknirinn gat ekki hringt og haft í hótunum, en til að tryggja sjer yfirgnæfandi samningastöðu hafði hann einnig látið það vera sitt síðasta verk áður en hann ruddist út úr lestinni að hrifsa af Ljenzherranum Lonely Planet bókina, sem innihjelt metrókort og dulmálslykil að kýrillíska stafrófinu, sem hafði þá ekki öðlast merkingu í skilvirku heilabúi Ljenzherrans sem fagurmótað kerfi hljóða.


Stúlka af sömu gerð og hjálpaði Ljenzherranum.

Ljenzherrann er hinsvegar reyndur ferðalangur og úrræðagóður, til samræmis við greindarvísitölu sína og fagurt útlitið. Sameinaði Ljenzherrann allt þetta í snilldarlegri áætlan, þar sem hann vjelaði íðilfagra úkraínska stúlku sjer til fylgispektar og leiðsagnar. Læknirinn hafði í ölmóki fyrr um daginn trúað Pótemkín litla fyrir mörgum af sínum myrkvustu leyndarmálum, og eitt af því sem Ljenzherrann hafði heyrt út undan sjer, var að hóteli væri við torg og gæti sjeð öllum sínum gestum fyrir gleðikonum við hæfi. Eftir að hafa matað stúlkuna á þessum upplýsingum var haldið í leiðangur. Eftir tvær misheppnaðar tilraunir var komið að hóteli sem merkt var með neonstöfum og blikkandi kvenmanslíkömum við súlu. Þóttu stúlkunni frómheit sín verðmætari en svo, að hún myndi fylgja Ljenzherranum þangað inn.

Ljenzherrann innritaði sig á hótelið og er hann hafði gert sig ábyrgan gagnvart öllum skemmdum, jafnt af náttúrunnar völdum sem og villimensku, heyrðist djúpraddaður hlátur úr myrkvuðu horni. Rjett sást glitta í whiskeyglas og endurspeglunina frá "Camel Trophy" sólgleraugum, sem Ljenzherrann kannaðst vel við.

Engin ummæli: