þriðjudagur, 22. maí 2007

Ljenzherrann gekk grunlaus inn í vinnuaðstöðu nemenda í dag, sem er stór og vel skrifborðum búin. Eitthvað þótti honum þó gruggugt vera í gangi þar sem óvenjulega mikil þögn ríkti í þessu fuglabjargi sem hljómar iðulega eins og þýskt sambýli í sykurvímu. Þegar betur var að gáð reyndist meirihlutinn bara sísona vera að bursta í sjer tennurnar.

Já! Bitte nú, bitte nú! Ljenzherrann hjelt fyrst að hann væri kominn inn í einhvern hópgjörning og að einhvurstaðar væri þá myndavjel sem væri ætlað að festa hneykslunarsvipinn á filmu. Sú hugdetta hvarf eins og dögg fyrir sólu er Ljenzherrann mundi að þessir dagbókarþrælar gera ekki nokkurn skapaðan hlut án tilgangs, jafnvel þó hann væri skipulagður nokkrum mánuðum áður. Hver á fætur öðrum tóku þau svo til við að skyrpa í vaskinn og skola tannbursta sína. Slík var samhæfinginn að ekki þurfti að skrúfa fyrir vatnið á milli. Eftir að hver hafði komið tannburstanum í bókaskáp sínum, sem auk bóka var stútfullur af öllum mögulegum og ómögulegum hlutum, settust þau öll hljóðlaust við borðin sín og tóku að rita í eins stílabækur með þjóðarpenna svissneskra, Caran d´Ache 825. Erðanú lýður.

Engin ummæli: