þriðjudagur, 17. apríl 2007

Curious, but careful..

Ljenzherrann er þeirrar skoðunar að ferðamenn megi draga gróflega í örfáa dilka. Fyrsti hópurinn, og sá sem fer mest í taugarnar á Ljenzherranum, eru þeir sem eru í bezta fríi í heimi. Þetta eru einstaklingarnir sem taka háfleygar staðháttalýsingar í ferðabókum, gleypa þær hráar og nota sem lægsta samnefnara eigin skoðanna. Þetta er tiltölulega fjölmennur og hávær hópur, gjarnan með ensku að móðurmáli, sem brosir jafn breitt þegar vel og illa gengur. Þau eru líka upptekin við að vera í ferðalagi lífs síns og það að vera tekinn ósmurður í óæðri endann bara partur af því að vera á framandi slóðum. Komist þau á snoðir um að þjer hafi ekki líkað eitthvað jafn vel og þeim, hafa þau afsakanir á reiðum höndum til að geta haldið bleika skýjinu sínu nógu þéttu til að það fjúki ekki brott við fret úr nokkrum fýlupúkum.Annar hópur sem vert er að minnast á eru veraldarvönu atvinnuferðalangarnir. Þeir eru umtalsvert verr til fara heldur en þeir fyrrnefndu en eru þó þeim ótvíræðu kostum búnir að lykta ágætlega og stofna heldur ekki til samskipta að fyrra bragði. Ekki ber að túlka það svo að þeim þyki leiðilegt að tala, þvert á móti, þeirra stærsta sælgæti er einmitt þegar einhver spyr þá ráða. Þeir fara þó fínt með þessa nautn sína og svara öllum spurningum kæruleysislega með tilvísunum og samanburði við hina og þessa staði sem þeir kunna að hafa komið til og þjer gætu þótt spennandi. Spyrjir þú slíkan mann hvurnig Angkor Vat sje, færðu mjög líklega svar sem byggir á samanburði vonbrigða hans við að sjá Kínamúrinn, Machu Picchu eða pýramíðana í Egyptalandi. Þessum mönnum þykir nefnilega flest harla óspennandi. Þyki þeim einhvur staður áhugaverður á annað borð gæta þeir sín sjerstaklega að byggja þennan áhugaverðanleika ekki á makróskópískum og yfirborðslegum hlutum, heldur einhverju sem gefur til kynna að þeir sjeu djúpt þenkjandi á sviði sögu, arkítektúrs, menningar og lista. Þessir einstaklingar eiga sjaldnast eftir minna en nokkra mánuði af eigin ferðalagi og ferðast að eigin sögn ákaflega hægt. Jafnvel þó svo að þeir gefi sig út fyrir að hata fátt meira en túristamergð, er þá einmitt hvað oftast að finna á slíkum stöðum, hangandi við bar að fiska viðræður.


Að sitja Ollifant??? Tja ekki jafn hast og að sitja kamel......

Engin ummæli: