föstudagur, 6. apríl 2007

Að byrja í nýjum skóla er stór stund í lífi sjerhvurs manns, þó einkum og sjer í lagi ef þar skyldi vera töluð þýzka. Fyrsti fyrirlesturinn var þó á ensku. Hann fjallaði um grunnvatn og Ljenzherrann glotti á meðan kennarinn talaði um óhómogenísk vökvaflutningskerfi í lekum miðli. Með rjettu hefði hann átt að vera skelfingu lostinn yfir því torfi sem borið var á borð, en enskan hjá kennaranum var ekkert ósvipuð þýskum hreimi hjá Jóni Gnarr á einhverjum af sínum betri sprettum.

Í tímanum sannaðist enn og aftur sá grundvallarmunur sem er á nefhreingerningum Íslendinga og meginlandsbúa Evrópu. Hinir fyrrnefndu stunda slíkt hvur hjá sjer, en hinir síðarnefndu eru allsendis ófeimnir við að snýta risanefjunum sínum á almannafæri. Voru tilþrifin slík að Ljenzherrann hjelt að hann væri kominn í falina myndavjel er snýtingsdrunurnar bylgjuðust um fyrilestrarsalinn, en hann var einn um að þykja þetta óviðeigandi. Að lokum var gert hlje á kennslu vegna frammígrips hjá Ljenzherranum, þegar hann hrópaði "Achtung, Achtung!", kynnti sig örstutt og tilkynnti síðan viðstöddum að hann myndi vinda úr snýtuklútnum ofan í þann næsta sem pússaði sjer nefið.

Annað sem kom Ljenzherranum á óvart var skvaldrið, sem var óvenjumikið af þjóð sem kúgar þegna sína með ýmiskonar reglum og leyfir þeim ekki einu sinni að hafa það magn af bylgjupappa í geymslum sínum sem þeim sýnist. Flestum er jú kunnugt hvernig svissneskir tjá sig með samblandi af rödduðum og órödduðum hljóðum úr munnholi og barka og grófum kokmisþyrmingum. Eins og þetta sje nú ekki nógu furðulegt út af fyrir sig, þá kastar fyrst tólfunum þegar þeir reyna að hvísla. Gengur það ágætlega með öll eðlileg hljóð, en hinsvegar lætur kokið ekki jafn vel að stjórn þannig að það eina sem heyrist eru rýturnar og ræskingarnar. Hvíslandi fyrirlestrarsalur hljómar því eins og glorhungrað svínabú.

En úr grámyglulegum hversdagsleikanum og yfir til Asíu.


The Farmer
Í Kampot í Kambódíu hitti Ljenzherrann fyrir þennan mann þar sem hann var að reka hjörð sína af vatnabuffalóum. Ljenzherrann bað hann að stilla sjer upp og tók honum því næst mynd. Karlinn hló rækilega er hann sá ásjónu sína í myndaapparati Ljenzherrans. Kvaddi síðan karl og hjólaði síðan í burtu á risastóra reiðhjólinu sínu, sem leit út fyrir að hafa verið sent til hans í tímavjel. Kampot var eitt af síðustu vígjum Rauðu Khmerannna en að loknum skósveinsferli sínum í þjónustu Pols Pots gerðust margir þeirra veiðiþjófar og herja nú á bæði tré og dýr í Bokorþjóðgarðinum.

When daddy stole my Tetris
Þessari stúlku leiddist óskaplega, faðir hennar hafði rænt hana rafrænni afþreyingu.

Lets play!
Þarna við landamæri Laos og Tælands skutluðu þessir piltar sér ofan í Mekongfljótið við sólarlag, Ljenzherrann brenndi af mynd eða tveimur, en allt púður í flassið hans hafði verið gert upptækt á landamærunum. Næsta verkefni var því að verða sjer úti um svartapjetur, brennistein og mortel.

Engin ummæli: