laugardagur, 24. mars 2007

Það var eitt sinn að Ljenzherran gisti hjá ágætu fólki í Svartfjallalandi. Við skulum kynna til sögunnar aðila málsins


Olga, köngulóarvefir í baksýn.


Maðurinn hennar Olgu, hermaður á eftirlaunum.

Ljenzherrann hafði vart stigið út úr bifreið sinni í Virpazar fyrr en Olga kom flaðrandi upp um hann. " Sobe, sobe, sobe." Hún hafði herbergi að bjóða og þar sem Ljenzherranum vantaði náttstað elti hann hana áleiðis að litlu húsi. Fyrir framan húsið var fjólublár plaststóll og í honum sat maður í felulituðu vesti, með kaskeiti og sólgleraugu. Eins og gefur að skilja vissi Ljenzherrann því ekki alveg hvurnig hann ætti að umgangast þennan mann. Þegar nær dró kom í ljós að maðurinn í hermannaklæðunum var vopnaður, flugnaspaða nánar tiltekið. Flugnaspaða þessum var óspart beitt á meðan Ljenzherrann smokraði sjer fram hjá og þegar inn í húsið var komið var ekki hjá því komist að hugsa til þess hvort að fórnarlömb flugnaspaðans væru ímynduð eða af veraldlegum toga.

Seinna kom þó í ljós að fórnarlömbin reyndust þessa heims. Tugþúsindir lítilla köngulóa annað hvort skriðu um eða komu svífandi í spottum sínum og festust á því sem fyrir varð. Trjágróður var alþakin köngulóarvef og hvert sem ferðinni var heitið þurfti að sveifla á undan sjer trjágrein, sem brátt varð eins og hið myndarlegasta candyfloss.

Óttinn við karluglunna reyndist hinsvegar ástæðulaus, enda reyndist karlinn ljúfur sem lamb. Hinsvegar reyndust tungumálaörðugleikar vera talsverðir, þar sem ekkert sameiginlegt tungumál var til staðar. Granatepli eru þó þeirrar náttúru að fáir geta haldið reisn sinni við neyzlu þeirra belgja og eftir að hafa setið á rökstólum með Svartfellingum og neytt þessa ljúfa ávaxtar hafði ísinn verið brotinn og hver kjaftaði ofan í annan. Hver mælti á sinni tungu og þrátt fyrir lítinn sem engan skilning þagði hver og einn í kurteisi og hlustaði á það sem hinn hefði til málanna að leggja. Á meðan flatti karluglan að sjálfsögðu út hvurt það kvikyndi sem vogaði sjer inn í þjónusturadíus hans.


Bezta skinn

Morguninn eftir klæddi Olga Ljenzherrann í klæðatutlur sínar og reimdi á hann skóna. Því næst dró hún hann með sjer niður á flæðilandið þar sem báturinn hennar var hlekkjaður við trje. Ljenzherrann hlálpaði henni við að fleyta honum og að því loknu reri hún með Ljenzherrann sinn upp ána á vit pelikana og dalalæðu. Engir pelikanar náðust á mynd, en köngulóarvefirnir, silfraðir af morgundögg, og þokuslæðingurinn gerðu þennan morgun ógleymanlegan.Sýnikennsla í onnor. Tito heði verið fullsæmdur af þessu.

Í kvedjuskyni leyfði Ljenzherran þeim skötuhjúum að prófa myndavjel sína, en sú hafði vakið mikla athygli. Vakti það mikla gleði og að sjálfsögðu var Ljenzherranum sýnd sú mikla virðing í staðinn að hann fjekk að prófa flugnaspaðann. Karlinn tók þó að sjer að benda Ljenzherranum á möguleg fórnarlömb.Í kveðjuskyni kyssti hinn frómi dáti hendur Ljenzherrans og þótti Ljenzherranum hann hafa gengið í barndóm þegar hendur hans hurfu inn í grófgerðar lúkur hermannins og gaddavírsskeggið boraðist inn í hendarbökin. En það merkilega er að á jafn ólíkum stöðum og á hinum íslenzka Jökuldal, í asískum frumskógarþorpum og þarna í Svartfjallalandi skuli gestrisnin allstaðar vera jafn rík.

Engin ummæli: