sunnudagur, 18. mars 2007


Hugsjónamaður, eins og Ljenzherrann.

Þekking drepur drauma, hugsaði Ljenzherrann með sjer er hann stakk myndavélabatterýinu í hleðslu eftir mikinn leiðangur til Asíu. Áður fyrr hafði hann nefnilega trúað á svokallaðar rafkerfakynbætur, en samkvæmt þeim væri hann, með mikilli gleði og ánægju, að setja kambódískar rafeindir inn á svissneska rafdreifikerfið. Sem ungur og fávís hafði hann haft mikið gaman af því að hlaða farsímann sinn í bifreið sinni eftir reisu til Grikklands og þóttist þannig hafa gætt ökutækið framandleika umfram aðrar bifreiðar. Hann var meira að segja búinn að semja auglýsingu í DV. (Mitsubishi Colt árgerð 1993 til sölu. Ekinn 165 þús, sumar+vetrardekk, smurbók og grískar rafeindir). En þessi draumur var drepinn þegar Ljenzherranum lærðist að hleðslutæki og rafhlaða væru tvö aðskilin kerfi og að hleðslutækið hlæði með því að þvinga efnasambönd batterísins til baka með rafsegulsviði, en ekki með því að bjóða nýjum rafeindum í batteríspartýið og sópa burt þeim sem ekki væru lengir hressar. Þannig hafði síminn hans hafði aldrei fyllst grískum, rafeindum, heldur hefðu hinar grísku í mesta lagi hæðst að rafeindum Ljenzherrans úr biðröð sinni þar sem þær marseruðu orkumiklar í gegnum vafningana og þvinguðu með ofbeldi og háðsglósum rafeindir Ljenzherrans í orkumeira ástand.

Þetta var talsvert áfall fyrir Ljenzherrann sem hafði gert sjer miklar vonir um það að geta gerst rafdreifikerfiskynbótafrömuður með því að flytja rafeindir hingað og þangað um heimin í stórum rafhlöðum og auka þar með hagsæld og velmegun. Ljenzherrann hefði getað sjeð efnamönnum fyrir rafeindum að eigin vali á bifreiðar þeirra og hjálpað þeim þannig við að brydda upp á áhugaverðum samræðum í snekkjuklúbbnum. Að sjálfsögðu hefði Ljenzherrann einnig látið að sjer kveða í þriðja heiminum og börn hefðu fagnað og öldungar fært fórnir þegar von væri á rafdreifiskynbótafrömuðinum í þorpið til að skipta út þessum óætis rafeindum sem væru að valda þeim búsifjum.

Engin ummæli: