mánudagur, 1. janúar 2007

Íslendingar hrista núið fram úr erminni jafn óðum, en slíkt vekur djúpstæðan viðbjóð í hugum þrælskipulagðra Svissara sem enga dyggð þekkja meiri heldur en stundvísi og vel nýttan dag. Svissarar vita sem er, að það er dagbókinni að þakka að þeir geti lifað jafn skipulögðu lífi og raun ber vitni. Þeir hampa henni meira að segja sem öðrum hornsteini stundvísrar tilveru sinnar. Hinn hornsteinninn er að sjálfsögðu vandað innlent armbandsúr.

1. janúar er mikill hátíðisdagur í Sviss og sje einhvern tíman ró yfir þessu agnarlitla landi, þá er það á þessum degi, þegar þeir færa upplýsingar úr gömlu dagbókinni yfir í þá nýju og bindast henni tilfinningaböndum með sjerstakri athöfn, sem hver verður að eiga í næði með sjálfum sjer. Ekki ber að túlka þetta sem svo að dagbókin hin nýja sje alls óskrifað plagg og hafi verið keypt núna á milli jóla og nýárs, því er Ljenzherrann kom til landsins í ágústlok voru einungis til restar af 2007 dagbókum í verzlunum og flestir búnir að koma janúarmánuði í fastar skorður strax í september.

Gamla dagbókin er að þessu loknu kvödd með kossi og örfáum tárum og að því loknu sett í hillu við hlið bókarinnar sem hún sjálf leysti af hólmi fyrir réttu ári síðan. Svissarar halda tryggð við sömu dagbækurnar ár eftir ár, og vei þeim dagbókarframleiðenda sem vogar sjer að breyta kápunni á milli ára, því gjöri hann svo, á hann yfir höfði sjer kvartanabrjef i tugþúsundatali frá örgum snyrtipinnum sem sjá fram á að sitja uppi með sundrungarlega dagbókarhillu að ári.

Engin ummæli: