laugardagur, 16. desember 2006

Margt hefur nú gerst frá því að við skildum við Ljenzherrann síðast. Þá var hann í Belgrad að bóhjemast eins og honum væri borgað fyrir það.

Ljenzherrann hafði yfirgefið náttstað sinn í birtingu og með bakpokann á öxlum hóf hann leitina að þeim næsta. Fyrir valinu varð Hotel Kasina, sem var eins kommúnistalegt og hugsast gat, en þó upphitað. Eftir örlítinn kattarþvott til að þvo af sjer ógeð liðinnar nætur hélt Ljenzherrann af stað í leiðangur um höfuðborg Serbíu. Ljenzerrann elti á sjer lappirnar vítt og breitt um borgina, allt þar til að hann var kominn á stærðarinnar útimarkað.


Traust og velvild eru ekki sjálfsagðir hlutir, heldur meira eins og tveir stæltir hestar sem hlaupa báðir mjög hratt.

Á markaði þessum mátti fá allt á milli himins og jarðar, en mestar mætur hafði Ljenzherrann þó á grænmetinu, sem allt hafði verið rifið upp úr jörðinni þá um morguninn. Virðulegar kerlingar sáu um sölumennskuna og eftir mikið af táknmáli náði Ljenzerrann að gera sig skiljanlegan um það að hann hefði miklar mætur á kúrbít. Barst það eins og eldur í sinu um grænmetismarkaðinn að til Beograd væri kominn gourmjesan allaleiðina frá Íslandi, og það gourmjesan með smekk á kúrbít. Úr öllum hornum og skúmaskotum tóku klútumprýddar kerlingarnar að streyma til þessa valinkunna gourmjesans með sinn bezta kúrbít til að leyfa honum að smakka. Sjaldan hefir Ljenzherrann verið þekktur fyrir að fúlsa við góðum kúrbít, en hann hugsar til þess með furðu og undrun enn þann dag í dag að þarna hafi hann verið kominn á fremsta hlunn með að afþakka bita af slíku lostæti.


Verið að koma undan kúrbít frá kúrbítsháknum.

Eftir að Ljenzherrann var búinn að tilkynna Srbonovu Curbíicic sigurvera og útskýra á táknmáli að þó að mjótt hafi verið á munum hafi kúrbíturinn hennar Srbonovu verið ögn framar öðrum kúrbít hvað lit og áferð snerti, en hvað bragðið varðaði væri honum ljóst að serbneskur kúrbítur allra kúrbíta ljúffengastur og það yrði sko ekki tekið frá neinni þeirrra ágætu frúa sem borið höfðu á borð fyrir hann jafn ágætan kúrbít og raun bar vitni. Þetta urðu þær allar hæstánægðar með, enda ku kúrbítur flokkast til skrælgrænmetis í Serbiu og því ávallt borinn á borð afhýddur. Að þvi loknu er hann svo annarsvegar sneiddur, skorinn í teninga eða jafnvel borinn fram í heilu lagi, allt eftir tilefni og því hvernig liggur á húsfreyjunni hverju sinni.


Ljenzherrann telur að kúrbíturinn sem slíkur hafi þróast út frá berjum.


Ljenzherrann var að þessu loknu fenginn til að meta ágæti hinna ýmsu vara á markaðinum og hvort sem það voru bleyjur sem hann átti að gera þarfir sínar í og leggja mat á rakadrægni og ísogsstuðul eða hvort hina ýmsu hatta og kaskeyti mætti nota sem neyðarpunghlífar sinnti hann öllum bónum af alúð og stökustu nákvæmni. Að lokinni hverri prófun gaf hann ítarlega skýrslu með handabendingum. Að lokum var hann leystur út með ýmsum gjöfum, svo sem ferskum túmötum og pari af dýrindis Levitzic nankinsbuxum með sjerstökum kúrbítsvasa.

Engin ummæli: