mánudagur, 13. nóvember 2006

Ljenzherrann á Balkan, fyrsti hluti.
Ljenzherrans fyrsta upplifan í þessari ferð tengdist sjálfvirkri lest er sjer um það að flytja farþega á milli bygginga á flugvellinum í Zürich. Í lest þessari ber farþegum að lúta vilja vjelraddar í einu og öllu. Kynlaus röddin er eins og klippt út úr framtíðarmynd og ráðskast hún með farþega sína á ýmsa vegu. Segir þeim að standa, sitja, káfa ekki á gleri og að lokum hypja sig út á áfangastað. Þetta þótti Ljenzherranum merkilegt og reyndi eftir megni að styggja ekki vjelröddina. Loksins þegar flugvjelin komst í loftið sveif hún í gegnum skýin og til móts við sólarlagið. Á meðan maulaði Ljenzherrann Kiki-Riki hneturnar sem honum voru skammtaðar og virti fyrir sjer strandlínuna sem Alparnir mörkuðu í skýjahafið. Ljenzherrann hafði einnig tekið eftir því að flugvjelin kom sneysafull frá Belgrad, en sjeri hálf tóm til baka og eftir að myrkrið var skollið á fór hann að velta því fyrir sjer hvort þetta væri fremur regla en undantekning með flug til og frá Balkanskaganum.Ljenzherrann lenti í Belgrad og dró djúpt að sjer andanum, eins og hann gerir ávallt þegar nýtt land og spennandi er undir fótum hans. Dimmrödduð flugfreyjan, sem leit út og talaði eins og versta klisja af austur-evrópskum kvenmanni, kvaddi kuldalega og Ljenzherrann gekk upp landganginn í átt að stigvaxandi reykjarmekkinum í Nikola Tesla flugstöðvarbyggingunni. Við tók hefðbundinn ratleikur í átt að vegabréfaeftirliti og farangursfæriböndum. Ljenzherrann var djúpt sokkinn í vangaveltur um það sem virtist fjölþjóðlega staðlaður flugstöðvargólfdúkur, þegar ungur sveinn tók framúr á mikilli siglingu, með gamla kerlingu í hjólastól á undan sjer. Kerlu virtist skemmt. Ljenzherrann hrökk upp úr vangaveltum sínum með gólfdúkinn og tók allt í einu eftir því að víðsvegar um ganganna sátu gamlar konur í ríkari mæli en hann átti von á.

Bakpoki Ljenzherrans virtist hafa skilað sjer óskaddaður á Balkanskagann og kom það þægilega á óvart. En það virðist margt fleira vera sameiginlegt með flugvöllum veraldarinnar heldur en val á gólfefnum. Það er nefnilega hverjum flugvelli mikil prýði að hafa í andyri sínu flokk af skúrkum til að okra á grandalausum ferðalöngum sem þurfa að komast til borgarinnar. Nikola Tesla var þar engin undantekning, á hringtökkuðum gólfdúknum í andyrrinu biðu ósvífnir ökuþórar í röðum eftir grandalausum ferðalöngum. Ljenzherrann notaði tækifærið til að æfa sig í serbnesku, og gelti "ne!" út í loftið eins og pirraður gamall kall og arkaði beinustu leið út í "JAT" flugvallarrútuna sem beið róleg á sínum stað, rjett eins og Lonely Planet hafði sagt fyrir um.

Ljenzherranum þykir fátt skemmtilegra heldur en nett menningarsjokk og rútuferð um myrk úthverfi Belgrad hafði upp á margt af því að bjóða sem gott slíkt sjokk hefir að prýða. Framandi músík, síbylja af óskiljanlegum samræðum, óskiljanleg skilti með kýrillísku letri, fornfálegar bifreiðar svo lítið eitt sé nefnt. Ljenzherranum þótti mikið til allra ljósritunarstofanna koma, en slíkt virðist vera mikill bissness. Rútuferðin endaði fyrir framan lestarstöð borgarinnar og var þá komið að Ljenzherranum að finna "The Belgrade Down Town Hostel" Sem átti að vera þar í næsta nágrenni. Á þessu mikla sæmdarhosteli hafði Ljenzherrann pantað herbergi eftir að hafa lesið miklar lofgjörðir um það við eftirgrennslan á alnetinu og nú var einungis eftir að finna það. Ljenzherrann klóraði sjer í kollinum og reyndi að ímynda sjer hvernig Karadjordjeva 91/7 væri ritað í kýrillísku letri götuskiltanna.


Loks fannst slotið í ákaflega hrörlegu húsi, sem einnig ku hýsa hinn ágæta "ekspres restauran Putnik." Ein dyrabjallan var merkt gistihúsinu góða og eftir að rám rödd hafði boðið Ljenzherrann velkominn beið hans eins viðurstiggilegur stigagangur og frekast er unnt að ímynda sjer. Einni hæð ofar var opin hurð og þar fyrir innan sat lítil og reykingaþurrkuð gömul kona við skrifborð og tottaði rettu. Hún bauð góða kvöldið á bjagaðri ensku og vísaði Ljenzherranum til herbergis inn af mótökunni, sem jafnframt þjónaði sem setustofa og borðsalur fyrir innifalinn morgunverð. Herbergið var rúmgott, og leit ekki nógu illa út til að Ljenzherrann nennti út í myrkrið að leita sjer að annarri gistingu. Einnig stóð til boða salerni sem var svo hugvitsamlega hannað að illmögulegt var að þvo sjer um hendurnar án þess að sitja í öndvegi.

Herbergið var ískalt, enda allir gluggar opnir. Ljenzherrann gerði sitt besta til að loka þeim eins og frekast var unnt, en hefði þurft tvo til þrjá brúsa af Sikaboom frauðinu ágæta til að þétta þá þannig að rokið í herberginu kæmist úr strekkingi niður í stinningsgolu. Á rúminu var frottélak, loðfóðrað af mannahári og Ljenzherrann igldi sig er honum varð hugsað til allra húðfrumanna sem þar hlytu að vera. Koddarnir voru óveraðir og hnökraðir. Í skápunum leyndust þó nokkur sængurver, sem stóðust þefpróf og hægt var að breiða inn í rúmið,Ljenzherrann háttaði sig upp að því marki sem hann hafði lyst á að liggja í þessu rúmi, slökkti ljósin og miðað við þreytu var viðbúið að meðvitund þryti á mettíma. Hann hafði ekki legið lengi fyrr en ferskreyktur sígarettureykur og óþefur áf langsoðnu kaffi var farinn að lauma sjer í nasir honum.Ljenzherrann skyldi núna hvers vegna gluggarnir hefðu verið opnir upp á gátt en reyndi að leiða þetta hjá sjer. Hann var við það að festa svefn þegar hundgá byrjaði að berast úr húsasundunum fyrir utan gluggana. Enn reyndi Ljenzherrann að leiða þetta hjá sjer, en smám saman stigmagnaðist í honum pirringurinn þar sem hann lá þarna í ísköldu herberginu, mettuðu af sígarettustybbu og ekki bættu rakkarnir úr skák. Stundum virtust hundarnir hlaupa eitthvað í burtu en alltaf þegar Ljenzherrann var við það að sofna, kom öll hersingin aftur og stundum fleiri. Gluggar beggja vegna við rúmið gerðu Ljenzherranum kleift að upplifa þetta í víðómi og ef Ljenzherrann hefði haft hólk undir bæli sínu hefði honum verið beitt.

Að lokum missti Ljenzherrann þó meðvitund, annað hvort af kulda eða þreytu, og vissi ekki af sjer fyrr en þrem tímum seinna þegar hann vaknaði við mjög háværa karlmannsrödd og reykingafýlu sem sjerhver íslenzkur skemmtistaður gæti verið stoltur af. Ljenzherranum leið eins og hann hefði orðið fyrir lest, enda bæði vansvefta og með glymjandi óþefsvakinn hausverk. Ljenzherrann klæddi sig í það litla sem hann hafði farið úr kvöldið áður og arkaði fram. Þar beið hans skítugur breti sem var að segja tveim stúlkum frægðarsögur af sjálfum sjer. Öll reyktu þau í kór og af öskubakkanum í afgreiðslunni mátti dæma að þar hafi kerlinginn setið síðan kvöldið áður og reykt sjer til afþreyingar. Ljenzherrann tilkynnti að hann hyggðist borga og ekki dvelja þar aðra nótt eins og upphaflega hafði verið ætlunin. Þetta virtist ekki koma konunni að neinum óvörum, heldur yppti hún bara öxlum og rukkaði sínar 30 Evrur sem hafði verið samið um á síðunni hostelbookers.com. Á snjáðum pappírssnepli fyrir aftan hana stóð hins vegar að herbergið kostaði 8 evrur nóttin, sem væri jú nær lagi.

Engin ummæli: