laugardagur, 14. október 2006

Ljenzherrann biðst forláts á fjarveru sinni frá veraldarvefnum. Ástæðu þessa má rekja til slælegs þráðlauss nets hjá nágrannanum. Er það nú nágranni. Eftir ítarlegar rannsóknir hefir Ljenzherrann fundið eina staðinn í íbúð sinni þar sem tölvan tollir sæmilega á netinu. Hefir henni því verið plantað þar og verður hún ekki hreyfð nema mikið liggi við. Verzt að þessi staður skuli einmitt vera í rúminu miðju.

Ljenzherrann mun bráðlega leggja upp í reisu. Á mánudaginn komandi mun hann stíga upp í flugvjel hjá hinu virðingarverða flugfjelagi JAT, betur þekktu sem Yugoslavian Airlines. Ferðinni er heitið til Belgrad. Í Belgrad hyggst Ljenzherrann spóka sig um og skoða jafnvel verksummerki velgjörnings þess sem NATO heiðraði borgina með. Því næst mun Ljenzherrann stíga um borð í lest sem mun flytja hann í gegnum Kosovo og áleiðis til Svartfjallalands.

Í Svartfjallalandi býst Ljenzherrann við konunglegum mótökum, enda hafa Íslendingar nýverið, fyrstir þjóða, viðurkennt sjálfstæði þjóðarinnar. Mun Ljenzherrann hafa í farteski sínu kassa af Champagner, enda gerir hann fastlega ráð fyrir því að þurfa að skýra nokkrar götur, eða í það minnsta eitt torg eða skip.

Ljenzherrann hjelt í dag í bæjarleiðangur til að græja sig í ferðina og kom meðal annars við í nokkuð merkilegri verzlun með útivistarvörur. Allt þar inni var þeim eiginleikum gætt að Ljenzherrann mátti ekki svo mikið sem gjóa augunum að því, að ekki væri það samstundis orðið hið bezta sinnar tegundar í gervöllum alheiminum. Átti þetta jafnt við um bakpoka, skó, klifurbúnað, öndunarfatnað og jafnvel sokka. Sölumaður þessi hefir að líkindum unnið við að selja aflátsbrjef í einhverjum af sínum fyrri lífum, og Ljenzherrann dregur það ekki í efa að hann eigi í verzlun sinni góða helskó, sem hægt væri að binda látnum ættingjum til að auðvelda þeim klifrið upp eftir.

Engin ummæli: