miðvikudagur, 13. september 2006

Tungumálanám er spennandi viðfangsefni fyrir Ljenzherrann, mann vísinda og tækni. Fyrir utan hefðbundna málfræðikennslu eru á degi hverjum eru haldnir svokallaðir talþjálfunartímar þar sem fjölþjóðlegur nemendahópurinn kemur saman og ræðir eitthvað málefni sem kennarinn velur af kostgæfni. Ýmis heimspekileg málefni eins og ellin, æskan, fíkn, skriðdýr og heppni hafa borið á góma, og í staðinn fyrir almennar umræður virðast flestir fara í allsherjar naflaskoðun á sjálfum sér. Þetta orsakar endalaust langar og leiðinlegar sögur, og flestir eru varla búnir að klára fyrstu setninguna áður en þeir eru komnir út í lengst út í móa.

Eins og við er að búast er Ljenzherrann gjörsamlega óalandi og óferjandi í þessum tímum, enda leiðist honum alveg svakalega og verður að hafa ofan af fyrir sjer með einhverjum hætti. Í fyrsta tímanum, þegar verið var að ræða aldur og æviskeið fjekk Ljenzherrann algerlega nóg og tók að stjórna sínum eigin umræðum um blóðmaura, sporðdreka og slöngur þær sem landlægar eru í Sviss. Gætti hann þess sjerstaklega að minnast á hina hvimleiðu sjúkdóma sem fylgt geta þessum kvikyndum og hvernig ætti að rífa blóðmaura úr mannsholdi með flísatöng. Í næsta tíma á eftir var ellin til umræðu og nemendur áttu að segja frá dæmigerðu ævikveldi heimalöndum sínum. Í flestum löndunum, eins og Nepal, Íran, Írak, Hvíta-Rússlandi og Eþíópíu, voru hinir öldruðu komnir upp á miskunn sinna nánustu, en því var þó ekki að heilsa í velferðarríkinu Íslandi. Þar ku hinum öldruðu nefnilega vera lestað á pramma ár hvert, og þeir fluttir hreppaflutingum út í tiltekna eyju úti fyrir landinu. Það besta var að allir trúðu þessu og kennarinn þurfti að hafa mikið fyrir því að leiðrjetta miskilninginn.


Nú er þó svo komið að búið er að stimpla Ljenzherrann sem bullukoll og öllu sem hann segir tekið með miklum fyrirvara. Ekki geta þó allir stillt sig um að yrða á hann, og forvitnast td. um hvort það sé satt að á Íslandi sje stundum dimmt allan sólarhringinn. Ljenzherranum er ákaflega ljúft að svara spurningum sem þessum, en hvort svörin sjeu góð landkynning, skal dregið stórlega í efa.

Engin ummæli: