miðvikudagur, 27. september 2006

Lizard

Þessi eðla kemur ekki við sögu í þessari færslu. Hún er samt voða fín.


Ljenzherrann brá sjer í dýragarð síðasta laugardag og rak hann þar upp stór augu. Á veitingastaðnum sat maður nokkur, arabískur yfirlitum, undir sólskyggni, og með heljarmikinn vefjarhött. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi ef það væri ekki bullandi rammadan og þessi kóni ekki að háma samvizkulaust í sig kjöt og franskar um hábjartan dag. Þegar betur var að gáð reyndist þetta þar að auki vera svínaschnitzel og þessu skolaði trúleysinginn niður með hvítvíni. Þetta þótti Ljenzherranum vera tilefni fyrir ærilega flengingu þannig að hann braut sjer væna grein af næsta hrísrunna, hirti þennan pagan rækilega og stráði síðan Íslandssalti yfir blóðugan óæðri endann. Bon appetit.

Ljenzherrann er enn og aftur að vekja undrun og aðdáun í talþjálfunartímunum. Umræðuefnið í dag voru draumar og til að halda geðheilsu sinni á meðan allir voru að tala um það hversu furðulegt það væri að sumir myndu eftir draumum sínum, en aðrir ekki, þá ákvað Ljenzherrann að berja í borðið og tala út frá eigin reynsluheimi Ljenzherrann hóf frásögnina með átakanlegri sögu af því þegar hann uppgötvaði fyrst að hann gæti haft áhrif á drauma sína. Til að byrja með ljet Ljenzherrann sjer það nægja að lyfta upp hendi sinni og skoða hana í draumi, en smám saman urðu draumfarir hans ekkert annað en verkfæri til að upplifa stórkostlega hluti. Stúlkan frá Chile, sem dreymir það á hverri nóttu að loðin könguló eti úr henni augun, sperrti eyrun og hlýddi bitur á það hvernig hver nótt væri Ljenzherranum stórkostlegt ævintýri og að hann ætti marga kassa af diktófónspólum sem hann hafði lesið inn á frásagnir frá stórkostlegum nóttum. Jú, Ljenzherrann lifði með sanni tvöföldu lífi, annarsvegar var hann hetja í draumum sínum, og hinsvegar gamli góði Ljenzherrann sem gerir sjer fátt spennandi til dundurs, annað en að flengja stöku trúleysingja sem verður á vegi hans.

Engin ummæli: