þriðjudagur, 15. ágúst 2006


Blessaðar kýrnar.

Sem krakki fjekk Ljenzherrann ekki að dóla sjer í unglingavinnunni, heldur var hann krúnurakaður og sendur í sveit. Þar var hann látinn stinga úr fjárhúsum, moka flór og mjólka kýr. Í Borgarfirðinum taldist það mönnum til tekna að vera fljótir að eta og ein af sterkari æskuminningum Ljenzherrans er af húsbændum sínum þar sem þau slafra í sig svið. Súrleiki þessa atburðar hefði sómt sjer prýðilega sem atriði í myndinni "Delicatessen". Þetta voru eldri hjón og voru þau bæði með gervitennurnar upp í sjer þegar máltíðin hófst, en eftir því sem æsingurinn færðist í aukanna vildu gervitennurnar þvælast fyrir, og voru því fljótlega komnar á ofan í vatnsglösin, sem auðvitað voru áfram í fullri notkun. Frúin á bænum hamaðist tannlaus við að slíta tunguna úr einum kjammanum á meðan að bóndi hennar saug augun úr öllum kjömmum sem hann komst í, þar með töldum Ljenzherrans. Síðan spítti hann út úr sjer augasteinunum á diskinn sinn, sumir skoppuðu þaðan niður á gólf, aðrir á disk Ljenzherrans. Síðan tók kallinn til við að slíta tunguna út úr sínum kjömmum, konu sinni til samlætis. Sátu þau þarna og mátti deila um hvort aðfarir þeirra líktustmeira því að þau væru að reyna að endurlífga blessaða kjammana eða iðka með þeim franskar munngælur.

Eftir að þau hjónin höfðu lokið sjer af með sína kjammana tvo hvert, var engu líkara en að nokkrar klofnar höfuðkúpur hefðu verið sóttar í Saharaeyðimörkina og settar þarna á matarborðið í Borgarfirðinum. Hver einasta kjötarða var horfin á braut og kallinn rétt náði að staulast á legubekkinn sinn áður en hann lognaðist út af og svaf meira segja af sjer það sem öllum bændum er heilagast, sjálfa veðuspána. Eftir þetta hefir Ljenzherrann ekki getað lagt sjer mat þennan til munns.

Næstkomandi laugardag mun Bruce Dickinson svífa frá Keflavík með sinn dýrmætasta farm til þessa, sjálfan Ljenzherrann af Kaffisterkt. Eftir rjetta viku verður Ljenzherrann kominn til Zürich þar sem hann mun ala manninn næstu tvö árin hið minnsta. Þá mun án efa renna upp sú stund að stórmenni nokkru Alpafjöllum sakni síns ástkæra föðurlands og myndi feginn skipta á kílói af dýrindis geitaosti og sviðnum kjamma af feitum sauð.

Engin ummæli: