föstudagur, 7. júlí 2006

Eftir nákvæmlega örfáar mínútur mun Ljenzherrann bruna úr hlaði á sjerstakri hálendisbifreið sinni. Hálendisbifreiðin, sem er af Suzuki gerð var keypt um svipað leyti sem Ljenzherranum hlotnaðist batsjelorsnafnbót og hefir því hlotið nafnið B.S.c.-Súkkan. Nafn bifreiðarinnar væri ef til vill meira lýsandi fyrir afl hennar, snerpu og dugnað ef Ljenzherrann hefði lagt fyrir sig húmanísk fræði.

Undanfarin tvö kvöld er Ljenzherrann búinn að iðka eksjersísur með sleggju og slípirokk til að koma undir gripinn dekkjum stórum og nú rjett áðan var Ljenzherrann að laga farþegasætið. Það hafði hlaupið í það slíkur púki að ekki var hægt að festa sætisbakið og þurfti því áður að hlaða varningi fyrir aftan það. Ljenzherrann leysti málið með örfáum hágæðaskrúfum og er sætisbakið nú skrúfað fast í stellingu sem Ljenzherrann telur að henti jafnt árvökrum farþegum, sem og þeim sem vilja njóta afslappan og leisjúr. Þá eru öryggisólar í öllum sætum.

Að sjálfsögðu mun Ljenzherrann gera sitt besta til að kynnast framandi menningu hálendisins og háttum þeirra sem þar búa. Ljenzherranum þykir þó vissara að vera við öllu búinn og gildir slíkt viðbúnaðrstig jafnt gegn höfuðáverkum, skærri birtu og ófreskjum.


Engin ummæli: