þriðjudagur, 11. apríl 2006

Fyrir allmörgum árum bjó Ljenzherrann í ákaflega hljóðbærri blokk og því var nú ver og miður að konan á neðri hæðinni skyldi vera, frómt frá sagt, ákaflega virk kynvera. Í nokkur ár söng hún Ljenzherrann í svefn á hverju kvöldi, en eitt skiptið var þó ákaflega sjerstakt. Þá hafði hún greinilega fengið tvo í heimsókn. Annar sló taktinn með rúmgaflinum, en hinn hvatti til dáða með hressum söng og gítarleik af varamannabekknum. Sjálf sá hún svo um bakraddir og almenn óhljóð, auk þess sem hún virtist hafa yfirumsjón með því hvernig leikmannaskiptingar inn á skeiðvöllinn færu fram.

Ljenzherrann býr núna í 8 íbúða húsi og þekkir marga nágranna sína frekar af hljóðum heldur en sjón, því það er ótrúlegt hversu fáa hann hefir hitt þetta ár sem búseta hans hefir staðið hjer yfir.


Fyrstan ber að kynna nágrannann sem er haldinn þráhyggju með innstungur. Þessi einstaklingur deilr með Ljenzherranum stofuvegg og það eina sem heyrist á milli er þegar hann er sífellt að taka einhvurn paufann úr sambandi og lætur síðan tengillinn detta í gólfið. Þetta gerist sirka fimm sinnum á hverju kvöldi. Etv. svalar það einhverri valdaþörf hjá honum að drottna svona yfir tenglum sínum.

Fyrir ofan hann býr indversk fjölskylda. Þau halda stundum "partý." Það síðasta var á aðfangadag jóla. Þá vaknaði Ljenzherrann um nónbil við framandi tóna, taktfast tramp og skvaldur á óskiljanlegu máli.

Í íbúðinni á móti býr lítil stúlka ásamt móður sinni og sú stutta hefur mjög ákveðnar skoðanir á uppeldi sínu og lífinu yfir höfuð.

Konan skáhalt á móti virðist hafa sett sjer það markmið að hósta upp úr sjer lungunum fyrir haustið 2007 og leggur stund á íþrótt sína nótt sem nýtan dag, konunni með barnið til lítils yndis.

Einhversstaðar í blokkinni er barn að stíga sín fyrstu skref á blokkflautu. Það eru ákaflega leiðinleg hljóð. :etta væri þó etv. enn meira vandamál ef Ljenzherrann ætti ekki rafmagnsgítar og sómasamlegan magnara sem hann gæti tjáð angist sína með. Blokkflautan þagnar þá án undantekninga.

Tveimur hæðum ofar ríkir ástríðuþrunginn tilfinningahiti. Annað veifið óma þaðan rifrildisrokur. Þær eru þó aðeins lognið á undan storminum því eftir um það bil korter skipta öskrin og lætin um eðli á þann veg, að orð víkja fyrir sjerhljóðum og um leið fer taktfast bank að berast niður burðarveggina. Þá hefur Ljenzherrann stundum átt það til að grípa í rafmagnsgítarinn.

Engin ummæli: