föstudagur, 17. mars 2006

Framhaldsblóg- Vers-Jón 3
Ljenzherrann af Kaffisterkt vaknaði einn morguninn ákaflega sæll eftir að hafa dreymt uppáhalds drauminn sinn. Hinsvegar láðist Ljenzherranum að skilja að svefn og vöku og fór því nestaður af ranghugmyndapaté til móts við nýjan dag. Þetta var ósköp venjulegur mánudagsmorgun og klukkan var ellefu. Ljenzherran lá uppi í rúminu, dúðaður í sængina sína og vekjaraklukkan lá í hrúgu í horninu. Hægt og rólega vaknaði Ljenzherrann til meðvitundar, eins og lítill prins. Ljenzherrann gætti sín vel að dæsa fremur en geyspa, því geyspum fylgja grettur og grettum fylgja hrukkur og frægum persónum eins og honum ber jú skylda til að vera halda sjer fallegum og hrukkulausum, fyrir heiminn.Ljenzherrann dæsti sjálfsánægjulega út í loftið og setti upp sjerstakan svip sem lýsti fullkomlega hugarástandi manns, sem veit að hann er elskaður af alþýðu manna. Með þaulæfðum hreyfingum dró hann úr pússi sínum lítinn spegil og dáðist af svipnum á sjer örlitla stund. Þetta var ágætur svipur. Ljenzherrann var ánægður, barði á brjóst sjer og fór að spássera um herbergið. Við hvert skref óx Ljenzherrann í áliti hjá sjálfum sjer og að lokum fór svo, að honum þótti herbergið helst til lítið fyrir svo stórfenglega persónu. Hann vildi út, en gat hann farið út? Ljenzherrann uppgötvaði það að hann, sem verðandi fræg persóna, almenningseign og þjóðarstolt gat varla verið þekktur fyrir það að spássera úti innan um sótsvartan almúgann... nema þá náttúrulega að hann dulbjyggi sig.

___________________________________________________________________

Þeir í bæjarins bestu eru vanir ýmsu, en þegar birkirunni birtist fyrir utan lúguna hjá þeim og kynnti sig sem verðandi þjóðarstolt Íslendinga, var þeim öllum lokið. Síðan heimtaði birkirunninn tvær með túmat sinnepi og steiktum. "Hvað þarf maður eiginlega að gera hjerna til að fá kók!!!!! Og ekki voga þjer að spara sinnepið!!!!" heyrðist síðan öskrað svo kröftuglega innan úr runnanum að nokkur laufanna fölnuðu og fjellu til jarðar. Þegar búið var að mata birkirunnann af góðgæti, og vökva hann með gosi, þakkaði hann kurteisislega fyrir sig og hjelt sína leið. Að sjálfsögðu gætti Ljenzherrann þess ákaflega vel að taka aldrei nema fimm skref í einu til að vekja ekki grunsemdir. Ljenzherrann tók allri athyglinni sem hann fjekk sem skýru merki um það að honum væri greinilega ekki lengur hætt út fyrir hússins dyr, þessi fræga persóna sem hann var orðin.

___________________________________________________________________

Ljenzherranum þykir frægðin dýru verði keypt og grætur það hlutskipti sitt að vera svo frægur og æðislegur að hann þurfi að dulbúa sig sem birkirunna til að geta fengið að vera óáreittur og spakur. Það er nefnilega alls ekki tekið út með sældinni að þurfa að reka öll sín erindi dulbúinn sem birkirunni. Þjer getið ekki borgað með þessu debetkorti herra Birkirunni, það er ekki mynd af þjer á debetkortinu!" Það eitt að taka af sjer nýja mynd í ökuskírteinið sitt er meiriháttar mál. Ljenzherrann þurfti að laumast í kringluna, og þurfti að beita lagni við að komast inn um sjálfvirku rennihurðirnar, þar sem hann má jú ekki taka nema fimm skref í einu, til að vekja ekki grunsemdir. Þegar inn var komið átti Ljenzherrann í mesta basli við að troða sjer og runnanum inn í sjálfsalann áður en myndirnar voru teknar. Ljenzherrann brosti sínu breiðasta innan í laufþykkninu á meðan flassið reið af en þegar búið var að taka myndirnar kom babb í bátinn. Ljenzherrann var fastur. Öskrin og lætin bárust um alla Kringluna.

Fílefldir karlmenn streymdu að úr öllum áttum, boðnir og búnir til að hjálpa, en Ljenzherrann rak þá alla í burtu með óhefluðu orðfari og svívirðingum og heimtaði skrúðgarðyrkjugarðyrkjumeistara sjer til aðstoðar. Uppátækið vakti mikla thygli og þegar loksins var búið að frelsa Ljenzherrann úr prísundinni var kringlan orðin full af forvitnu fólki. Ljenzherrann barmaði sjer yfir allri athyglinni sem hans fræga persóna dró að sjer og stormaði í nýsnyrtum runnanum sínum í áttina að pottaplöntum sem settar höfðu verið í eitt hornið til ánægju og yndisauka. Ljenzherrann vonaði að hann myndi falla það vel inn í umhverfið að allir myndu gleyma sjer og halda sína leið.

Engin ummæli: